135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

ættleiðingar.

578. mál
[15:40]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kýs að nota andsvarsheimildina til að afla mér upplýsinga en ekki til að halda hér langa ræðu um mál sem er lítið umleikis en líklega mjög gott eins og ég skil það. Mig langar að nýta tækifærið og spyrja hæstv. dómsmálaráðherra aðeins út í málið.

Verið er að lengja svokallað forsamþykki úr tveimur árum í þrjú ár af því að færri börn eru til ættleiðingar og tíminn því lengri sem væntanlegir foreldrar þurfa að bíða eftir að fá barn. Mig langar að inna hæstv. dómsmálaráðherra eftir því hvort einhvern tíma hafi reynt á þetta ákvæði að því leyti að væntanlegir foreldrar hafi lent í miklum vandræðum út af því eða hefur alltaf verið gefið út undantekningarleyfi þannig að faktískt hafi enginn lent í vandræðum, fólk hafi getað reddað sér með undantekningarleyfunum. Mér finnst mikilvægt að það komi hér fram af því að það er auðvitað mjög slæmt ef fólk hefur ratað í mikil vandræði úr af þessu. Er ekki málið þannig vaxið að það sé bara verið að lengja tímann þannig að það þurfi síður að láta reyna á undantekningarleyfin?