135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:36]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég held að það skipti mjög miklu máli að unnið sé af trúverðugleika. Þess vegna tel ég að fjárlaganefnd eigi að taka fjárlög ársins upp og endurskoða þau miðað við breyttar forsendur. Í haust var gert ráð fyrir að verðbólga yrði 3,3% og það eru forsendur fjárlaga sem unnið var með við fjárlagagerðina. Í janúar var spáð af hálfu fjármálaráðuneytisins að verðbólgan yrði 4,3%, í apríl spáir fjármálaráðuneytið að verðbólgan sé 8,3% og nú er hún 11,8 eða tæplega 12%. Ein af grundvallarforsendum fjárlaga eru því brostnar og það sem verra er, fjármálaráðuneytið virðist vera einhvers staðar úti að aka.

Ef við lítum á gengi íslensku krónunnar þá var gert ráð fyrir því í forsendum fjárlaga að það yrði 119. Í janúar gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir að gengið fyrir árið 2008 verði 121. Í apríl gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir að gengi krónunnar verði 135. Núna er það í kringum 150. Grunnforsendur fjárlaga eru því brostnar og ríkisstjórnin virðist lifa í einhverjum veruleikafirrtum heimi. Ég tel að eitt brýnasta málið nú sé að koma ríkisstjórninni til veruleikans. Það má skipta um ríkisstjórn. Við höfum haft ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins í 17 ár og nú biður hún um biðlund, hún er að biðja um að sér sé sýnd biðlund og að leitað verði samskota meðal almennings til að rétta við fjárhaginn og stofna eitthvað sem heiti þjóðarsjóður, eftir 17 ára ríkisstjórnarferil Sjálfstæðisflokksins. (Forseti hringir.) Það er alveg hárrétt að skipta um ríkisstjórn en númer eitt er að vera með réttar tölur og vinna út frá réttum forsendum, herra forseti.