135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:31]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel það töluverð tíðindi að heyra hæstv. byggðamálaráðherra Össuri Skarphéðinssyni lýsa þessu yfir. Það hefur verið eitt af baráttumálum Frjálslynda flokksins til langs tíma að allur fiskur fari á fiskmarkað. Reyndar var þetta komið fram hjá öðrum stjórnmálaflokkum hér á árum áður, þ.e. gamla Alþýðuflokknum, að mig minnir. Og eitthvað hefur nú Samfylkingin fjallað um þetta en ekki fylgt því eftir af neinni hörku og alls ekki núna við myndun þessarar ríkisstjórnar.

Það þyrfti náttúrlega fleira að gera eins og aðskilja veiðar og vinnslu og það má alveg nefna það sem hugsanlega aðferð, af því menn hafa hér talað um að ekki hafi verið bent á neinar leiðir, og það er einfaldlega að bjóða upp veiðiheimildir, að ríkið bjóði upp veiðiheimildir. Ríkið á veiðiheimildirnar og það er ekkert að því að ríkið bjóði upp veiðiheimildir annaðhvort í aflamarkskerfi í tonnum og kílóum eða, eins og ég hefði viljað sjá, bjóða upp veiðidaga. Við vitum hvað við þurfum marga veiðidaga til að veiða þann afla sem má veiða og það hefði verið sniðugra með tilliti til þess að þegar við bjóðum upp fisk í kílóum þá myndast hvati til brottkasts sem er mjög alvarlegur hlutur í íslenskum sjávarútvegi og ótrúlega lítið er gert með þann vanda. Og svo þekkist aftur alls konar svindl og svínarí í þessu kerfi. Ég hyggst leggja fram frumvarp til að reyna að opna og upplýsa hvað það er. Þetta frumvarp liggur fyrir hér í þinginu og ég fæ væntanlega að mæla fyrir því fyrr en seinna. En ég get ekki annað en lýst yfir ánægju minni með viðbrögð byggðamálaráðherra í þessari umræðu.