135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

niðurstaða PISA-könnunar 2006.

[13:44]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst, miðað við hvernig hæstv. ráðherra svaraði í Fréttablaðinu, að ekki var verið að tala um þau frumvörp sem nú liggja fyrir þinginu. Það var ljóst þegar það svar var gefið að þau frumvörp voru komin inn í þingið. Það var verið að vísa í einhver önnur viðbrögð. Það var verið að bíða eftir svörum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandinu, Heimili og skóla og fleirum áður en brugðist yrði við. Hæstv. menntamálaráðherra upplýsir að fara eigi í eitthvert sérstakt átak til skemmri tíma þegar þessi svör hafi borist og þau eru að skila sér þessa dagana, heyri ég líka. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða sérstaka átak er þetta? Er þetta eitthvert átak sem við munum sjá verða að veruleika strax í upphafi næsta skólaárs? — af því að það er sett til skemmri tíma, segir hæstv. ráðherra.