135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni.

[14:05]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður er þeirrar skoðunar að eftirspurn eftir áli og eftirspurn eftir orku, hverrar tegundar sem hún er — sem er í raun óendanleg — sé það sama og hagsmunir mannkyns þá erum við einfaldlega algjörlega ósammála. Það er ósköp einfaldlega þannig að á jörðinni búa 6,5 milljarðar manna, árið 2050 verða hér um 9 milljarðar. Ef allir 9 milljarðarnir ætla að nýta orku með sama hætti og Vesturlandabúar gera verður — ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að orða það — katastrófa er líklega vægt til orða tekið.

Hv. þingmaður er haldinn þráhyggju vegna kolaorkuvera í Kína og álversframleiðslu og vil ég því benda honum á (Forseti hringir.) að þorri áls í heiminum er framleiddur með endurnýjanlegri orku. Samanburðurinn við Kína stenst ekki (Forseti hringir.) þegar grannt er skoðað og er fullkomlega ábyrgðarlaus áróður.