135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[14:09]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að koma hér aftur að lokinni ræðu hæstv. iðnaðarráðherra til þess að undirstrika það sem ég sagði hér áðan: Nýbreytni sú sem við höfum verið að innleiða í þinghaldinu gerir það að verkum að þegar óundirbúnir fyrirspurnatímar eru tvisvar í viku og tilteknir ráðherrar auglýstir með viðveru mæta aðrir ekki. Sú var tíð hér á síðasta ári að þinghaldið var með þeim hætti að við hófum fundi á atkvæðagreiðslum í mun meira mæli en við gerum núna. Þess vegna voru ráðherrar alltaf undirbúnir og voru hér í upphafi þingfunda. Það er með nýjum þingskapalögum liðin tíð.

Ég vil ítreka að mér finnst að hæstv. heilbrigðisráðherra hefði átt að vera hér eins og gert hafði verið ráð fyrir. Þingið hafði látið það boð út ganga að hann yrði hér og þingmenn eiga erindi við hæstv. heilbrigðisráðherra.