135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[14:15]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Svo háttaði til að auglýst var að hæstv. heilbrigðisráðherra yrði til andsvara svo að þingmenn gætu beint til hans óundirbúnum fyrirspurnum. Það er skiljanlegt að einstaka þingmönnum þyki miður að hæstv. ráðherra kom ekki og það gekk ekki eftir, eðlilegt að mönnum finnist það ekki nógu gott.

Á hitt ber að líta, svo allrar sanngirni sé gætt, að hæstv. ráðherra hefur sérstaklega í dag miklum skyldum að gegna í starfi sínu og örugglega eru ríkar ástæður fyrir því að hann gat ekki komið og kaus að verja tíma sínum við að leysa brýnni vandamál sem blasa við honum. Ég held að menn verði að sýna bæði sanngirni og velvild þegar aðstæður eru eins og þær eru í dag.