135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

mannekla á velferðarstofnunum.

[14:23]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Við ræðum um vandamál sem eins og málshefjandi, hv. þm. Þuríður Backman, vék að er í rauninni undir miklum breytingum þessa mánuðina vegna þess að sú mannekla sem hefur verið í láglaunastörfum á Íslandi mun breytast mjög hratt á næstu vikum og mánuðum miðað við þær fréttir sem við höfum af hagkerfinu og miðað við það aðgerðaleysi sem ríkisstjórnin er mjög staðföst í að viðhafa gagnvart vandamálinu. Það er auðvitað hægt að fagna því að hæstv. fjármálaráðherra hefur vissan velvilja gagnvart þessum stofnunum. Öllu meira gat ég ekki fundið ánægjulegt í ræðu hans því að það var ekki um að ræða nein fyrirheit varðandi það atvinnuleysi, heldur er frekar litið til þess að hér sé vandamálið að leysast af sjálfu sér. Ekkert er svo slæmt að það skoði ekki einhverjar þær breytingar sem hjálpa öðru og í þessu tilfelli mun atvinnuleysi og rýrnandi kjör valda því að auðveldara verður að manna þessi láglaunastörf.

Mér þykir það undarleg hagfræði hjá hæstv. fjármálaráðherra að það sé skammgóður vermir í þessu máli að hækka launin. Sjálfur hef ég verið nokkuð trúaður á þau hagfræðilögmál sem byggja á framboði og eftirspurn. Það getur vel verið að flokkur fjármálaráðherra hafi sagt skilið við trú á þau hagfræðilögmál. Ég er sjálfur sannfærður um að hærri laun til umönnunarstétta mundu skila sér í mjög breyttu umhverfi og væri líka full þörf á vegna þess að þarna eru laun mjög víða skammarlega lág. (Forseti hringir.)

Það var vikið að þreytu starfsfólks í þessum umönnunargeira. Ég hef í rauninni meiri áhyggjur af þeirri almennu þreytu sem kemur fram (Forseti hringir.) hjá starfsfólki í hæstv. ríkisstjórn á Íslandi.