135. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2008.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

243. mál
[14:57]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarp um breyting á lögum um snjóflóð og skriðuföll sem umhverfisráðherra mælti fyrir fyrr á þessu þingi. Nefndarálitið liggur fyrir á þingskjali 927 og geta menn kynnt sér efni þess þar.

Í stuttu máli varðar efni frumvarpsins að veita umhverfisráðherra heimildir til að gera úttektir á snjóflóðahættu í dreifbýli um leið og heimildir hans til gerða þeirra í þéttbýli takmarkast nú þegar við byggða byggð.

Nefndin leitaði umsagnar ýmissa aðila, sveitarfélaganna, Viðlagatryggingar, Samtaka fjármálafyrirtækja og Veðurstofu Íslands. Skemmst er frá því að segja að enginn umsagnaraðilanna gerði athugasemdir við efni frumvarpsins.

Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa Veðurstofunnar sem annast um gerð hættumats. Þær úttektir sem hér er gert ráð fyrir eru talsvert viðaminni en hið formlega hættumat. Þær eru fyrst og fremst ætlaðar til þess að gera stöðumat á svæðum.

Nefndin taldi hins vegar að þær takmarkanir í heimildinni sem sneru að því að heimild ráðherra ætti ekki að ná til frístundabyggðar, væru ekki fyllilega réttmætar. Það væru annars vegar efnisleg rök til þess og jafnræðisreglan stæði til þess að þeir sem eiga lögheimili eða fast aðsetur í frístundabyggð eins og dæmi eru um þótt óljóst sé um hve stóran hóp er að ræða þar. Gagnvart honum sé nauðsynlegt að fram fari sams konar úttekt og gagnvart annarri byggð. Sömuleiðis væri rétt að láta heimildir ráðherra ná til úttektar á þyrpingu þegar byggðra frístundahúsa. Það er um það að ræða að nokkrar slíkar þyrpingar eru á þekktum snjóflóðasvæðum sem ástæðulaust er að gera ekki úttekt á þegar verið er að gera úttektir í dreifbýli á annað borð, enda eru dæmi um að snjóflóð og skriðuföll hafi fallið í slíkri byggð.

Þá kom í ljós við umfjöllun nefndarinnar að þó að ekki sé um það getið í heimildinni þá hafa úttektirnar auðvitað náð til húsa þar sem fólk á ekki lögheimili en safnast saman, eins og skóla og félagsheimila og annarra slíkra. Taldi nefndin rétt að taka af öll tvímæli um það að heimildin næði einnig til þeirra húsa. Þess vegna eru lagðar til lítils háttar breytingar í breytingartillögu nefndarinnar um umfang heimildar ráðherra. Heimildir ráðherra til þess að gera úttektir á snjóflóðahættu eru auknar frá því sem ráðherra gerði ráð fyrir í sínu frumvarpi, þó ekki þannig að það hækki kostnað verulega.

Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að heimilt verði að kosta þessar úttektir úr ofanflóðasjóði. Breytingartillaga nefndarinnar lýtur þá að því að heimildin nái til frístundabyggðar þar sem fólk hefur lögheimili eða fast aðsetur, til þyrpingar þegar byggðra frístundahúsa og sömuleiðis til staða þar sem fólk safnast saman, félagsheimila, skóla o.s.frv.

Nefndarálitið er eitt og samhljóða en auk mín standa að því hv. þm. Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Höskuldur Þórhallsson og Ólöf Nordal.