135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

jarðskaut.

504. mál
[12:11]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það er ljóst af svari ráðherra, sem ég vil þakka kærlega fyrir — og ég skil hann svo að hann sé mér sammála í því að um mjög alvarlegt mál sé að ræða hvað varðar neytendur. Það er gríðarlega mikil eigendaábyrgð hjá orkuveitunum sem þeir verða að fylgja eftir en menn hafa séð, það eru allt of mörg dæmi um það að ekki er nógu vel að verki staðið þarna. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga að almenningur er mjög berskjaldaður vegna ósýnileika vandamálsins, þ.e. ósýnileikans með berum augum. Ég hef þó orðið vitni að því þar sem verið var að skipta um kerfi undir húsum, bæði rafkerfi og neysluvatnskerfi, að jarðskautið var einfaldlega tekið úr sambandi og stóð út úr þvottahúsveggnum. Þetta er vandamál sem fólk áttar sig ekki á nema fagaðilar bendi á það.

Það er mikil þörf, það þyrfti að fylgja því eftir með öðru máli, á rannsóknum á áhrifum rafmengunar á mannslíkamann. Tíðni krabbameins og hvítblæðis auk margra annarra óvenjulegra sjúkdóma hefur hækkað og leiddar hafa verið líkur að því að rafmengun eigi mikinn þátt í því. Þetta þarf að rannsaka og Ísland er auðvitað mjög ákjósanlegur vettvangur fyrir margra hluta sakir til slíkra rannsókna.

Eitt af því sem Brynjólfur Snorrason hefur verið að rannsaka er mismunandi hraður vöxtur baktería í mismunandi (Forseti hringir.) rafmenguðu umhverfi og þetta eru líka rannsóknir sem þarf að fylgja eftir og ég vona að það verði tekið upp þó að síðar verði.