135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

öryggi vegasambands við Ísafjörð um Súðavíkurhlíð.

390. mál
[12:46]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Full ástæða er til að þakka fyrir góða fyrirspurn hv. þm. Jóns Bjarnasonar um jarðgöng. Ég vil líka þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, það sem hann leggur til málanna, að horfa jákvæðum augum á þessi mál. Við höfum tekið eftir því að veðurfar og annað í tengslum við náttúruna breytist oft fljótt og ört og eftir því sem við verðum vör við að snjóflóðum fjölgar og hætta verður meiri af að aka þennan veg á milli Ísafjarðar og Súðavíkur hljótum við að taka þessar ábendingar alvarlega og óskir fólksins um að fara að huga að þessari vinnu með tilliti til öryggissjónarmiða.