135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

stofnanir á sviði samgöngumála og Háskólinn á Akureyri.

417. mál
[12:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi uppbyggingar samgöngukerfis landsmanna. Það má segja að um leið og stórum verkefnum sé lokið blasi önnur og stærri við. Á það við hvort sem er á sviði siglingamála, vegamála, flugmála eða fjarskipta.

Stofnanir samgönguráðuneytisins eru afar mikilvægar þegar horft er til styrkingar innviða í landinu. Þær gegna lykilhlutverki til að efla búsetu hér, ekki síst í hinum dreifðari byggðum landsins. Við verjum miklum fjármunum til þessa kerfis og við ætlumst til afar mikils af því. Þess vegna hlýtur að þurfa að horfa sérstaklega á þróun þess, fylgjast með straumum og stefnum og átta sig á hvert við ætlum að stefna með þetta allt saman. Í því skyni hljóta rannsóknir og samstarf við háskóla að skipta máli.

Höfuðstöðvar allra þessara stofnana eru í Reykjavík þótt flestar hafi þær útibú víða um land. Þegar horft er til eflingar opinberra starfa á landsbyggðinni er ljóst að stofnanir samgönguráðuneytisins henta hvað best enda um að ræða starfsemi sem að stórum hluta er úti á landi. Nú blasir t.d. við að Vegagerðin þarf á auknu húsnæði að halda sem kann að reynast býsna kostnaðarsamt. Væri hægt að nýta tækifærið sem flutningur hennar innan höfuðborgarsvæðisins hefði í för með sér til þess að horfa út á land. Ríkisstjórnin hefur metnaðarfull markmið um störf án staðsetningar og um eflingu byggðar í landinu. Það hefur verið reynt að flytja stofnanir í heilu lagi út á land og það hefur gengið misvel eins og gengur. Sjálfsagt hefur það haft áhrif hvar sem staður hefur verið valinn og hvernig sem jarðvegurinn hefur verið fyrir þær á hverjum stað. Skógrækt ríkisins sómir sér t.d. vel á Egilsstöðum. Af hverju er ekki hægt að hugsa sér að þungi ákveðinna stofnana sem hafa mikla skírskotun til landsbyggðarinnar flytjist þangað?

Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann telji að hægt sé að horfa sérstaklega til stofnana samgönguráðuneytisins og þá hvort hægt sé að nýta þær til að treysta atvinnulíf og menntakerfi landsbyggðarinnar.

Akureyri hefur breyst mikið á undanförnum áratugum og óhætt er að segja að háskólinn hafi reynst einn af máttarstólpum Akureyrar frá stofnun hans fyrir röskum 20 árum. Viðamikið rannsóknarstarf er unnið á vegum háskólans, ekki síst á sviði byggðaverkefna ýmiss konar. Vel er hægt að hugsa sér að samvinna hans og stofnana samgönguráðuneytisins gæti verið heppileg fyrir þróun byggðar í landinu.

Vegna þessa vil ég spyrja hæstv. samgönguráðherra:

1. Telur ráðherra mögulegt að færa hluta af starfsemi stofnana á sviði samgönguráðuneytis, t.d. á sviði vegamála og siglingamála, til Akureyrar?

2. Er að mati ráðherra grundvöllur fyrir samstarfi milli Háskólans á Akureyri og stofnana á sviði samgöngumála til að renna frekari stoðum undir starfsemi skólans?