135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

störf þingsins.

[13:45]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég trúi því ekki sem ég var að heyra. Ég trúi því ekki að hv. þm. Ásta Möller, formaður heilbrigðisnefndar Alþingis, ætli virkilega að moka þessu máli í gegn á örfáum dögum. Þetta eru 73 greinar og 4 bráðabirgðaákvæði. Í fyrstu setningunni varðandi efni málsins, umsögn um frumvarp til laga um sjúkratryggingar, þá stendur hér, með leyfi virðulegs forseta:

„Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um sjúkratryggingar og sjúklingatryggingar.“

Þarna er verið að fara inn á einkarekstrarbrautina í auknum mæli, talað um útboð o.s.frv., fullt af málum sem þarf að skoða miklu betur. Það er ekki boðlegt að stunda ekki fagleg vinnubrögð á Alþingi. Það er liðin tíð. Það þýðir ekki að koma hér upp og ætla að moka þessu máli í gegn á örfáum dögum. Það gengur ekki upp, virðulegi forseti. Það er niðurlæging fyrir þingið ef klára á þetta mál á þetta fáum dögum. Hvernig á að fá umsagnir um svona stórt mál á svona fáum dögum, virðulegi forseti?

Ég vil líka spyrja virðulegan forseta: Forsetaembættið hefur mikil áhrif á það hvernig unnið er í þinginu. Starfandi hæstv. forseti er ágætlega að sér um heilbrigðismál þannig að ég vil gjarnan fá að heyra í starfandi hæstv. forseta þingsins hvort það er virkilega þannig að við getum ekki fengið svör um hvort þetta mál verður rætt á morgun og hvort á að klára það áður en þingi lýkur, á þessum örfáu dögum. Ég trúi ekki að það eigi að niðurlægja þingið. Ég mótmæli því, virðulegi forseti.