135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

erfðabreytt matvæli.

585. mál
[14:39]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tvær spurningar um erfðabreytt matvæli og eins og kemur fram á þingskjali 904 vísa ég í spurningum mínum til áðurfenginna svara um sama efni.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvað valdi því að enn hafi ekki verið sett reglugerð um merkingu erfðabreyttra matvæla. Spurningum á fyrirspurn minni í febrúar 2005, á þingskjali 752, var svarað því að reglugerð varðandi rekjanleika matvæla og merkingu erfðabreyttra lífvera og fóðurs sem framleitt er úr erfðabreyttum lífverum hafi tekið gildi hjá Evrópusambandinu 18. apríl 2004. Það væri unnið að upptöku hlutaðeigandi gerða í EES-samninginn og þegar það hefði verið gert yrðu þær teknar upp í íslenskan rétt. Þáverandi hæstv. umhverfisráðherra sem svaraði þessari spurningu sagði hins vegar útilokað að segja á því stigi hver dagsetningin yrði en á svarinu má skilja að ákvörðun sé skammt undan. Ég spyr einnig hæstv. ráðherra hvað valdi þeim drætti sem orðinn er á útgáfu fræðslubækling fyrir almenning um erfðabreytt matvæli sem í fyrrgreindu svari kom fram að ætlunin væri að gefa út.

Ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á því að umræðan um erfðabreytt matvæli og merkingar þeirra og þörfina á merkingum er alltaf að aukast. Við Íslendingar drögum lappirnar í þessum efnum og erum komin langt, langt aftur úr nágrannalöndum okkar, löndum Evrópusambandsins, að ekki sé talað um Norðurlöndin en Norðmenn hafa sett reglur um merkingar og erfðabreytt matvæli, sem eru kannski þær ströngustu í heimi, að mjög vel athuguðu máli.

Neytendasamtökin hafa hvað eftir annað, bæði í tímariti sínu og með formlegum erindum til ráðherra, óskað eftir því að farin sé svipuð leið hér á landi og farin er á Norðurlöndunum. Eftir því sem mér hefur skilist á því sem ég hef kynnt mér skrifuðu Neytendasamtökin á síðasta ári bréf til umhverfisráðherra, sem þá mun hafa haft þessi mál á sínum höndum, þar sem krafist er merkinga á erfðabreyttum matvörum, en ég sé ekki á síðu samtakanna að borist hafi svar.

Nú held ég að hæstv. ráðherrar geti ekki dregið það lengur að svara íslenskum neytendum afdráttarlaust um þetta. Við getum svo deilt um það á öðrum vettvangi hversu hættuleg erfðabreytt matvæli eru en merkingar á matvælunum verða að vera til staðar til að neytendur eigi möguleika á því að velja erfðabreytt matvæli eða hafna þeim. Annað er fásinna. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra svari mér skýrt og skorinort (Forseti hringir.) hvað þetta varðar.