135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

almannatryggingar.

614. mál
[14:06]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör við hluta af þeim spurningum sem komu fram í fyrri ræðu minni í dag. Í ljósi þess að það fundarform sem andsvörin eru er frekar knappt hyggst ég nýta fimm mínútur til þess að fara örlítið yfir það því að mér fannst hæstv. félagsmálaráðherra vega dálítið hart að Framsóknarflokknum og kannski ekki síst að þeim hagsmunaaðilum sem stóðu að samkomulagi við ríkisstjórnina árið 2006. Það verður ekkert um það deilt að í því samkomulagi var miðað við kauptryggingu, það verður ekkert um það deilt. (Félmrh.: Fram í tímann líka?) Fram í tímann, segir hæstv. ráðherra. Hvernig töluðu stjórnmálamenn í aðdraganda síðustu kosninga? Áttu aldraðir og öryrkjar virkilega að eiga von á því að það viðmið yrði lækkað? Hvers lags málflutningur er þetta eiginlega hjá hæstv. ráðherra?

Hún beinir heldur ekki máli sínu eingöngu að okkur framsóknarmönnum um að við höfum ekkert meint með því sem gert var árið 2006, hún beinir málflutningi sínum líka að Alþýðusambandi Íslands, Landssambandi eldri borgara og Öryrkjabandalaginu. Því til staðfestingar ætla ég að lesa ályktun sem þessir þrír aðilar sendu ríkisstjórn Íslands á dögunum og ég vona að hæstv. ráðherra hafi lesið hana en ályktunin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþýðusamband Íslands, Öryrkjabandalag Íslands og Landssamband eldri borgara mótmæla harðlega þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hækka elli- og örorkulífeyri um einungis 4–5 þús. kr. í kjölfar nýgerðra kjarasamninga.

Meginmarkmið verkalýðshreyfingarinnar í nýgerðum kjarasamningum var að bæta kjör þeirra verst settu í þjóðfélaginu og í samræmi við það náðu aðildarsamtök ASÍ og Samtaka atvinnulífsins samkomulagi um hækkun lægstu launa um 18 þús. kr. á mánuði. Við frágang kjarasamninga var talað um sögulegt samkomulag og almenn sátt og ánægja ríkti í samfélaginu um þá leið sem farin var enda lýsti ríkisstjórnin sérstaklega yfir ánægju sinni með þessar áherslur.

Það þarf enginn að fara í grafgötur með að fjöldi fólks í hópi öryrkja og aldraðra er meðal þeirra sem lægstar hafa tekjurnar í okkar þjóðfélagi. Það skýtur því algerlega skökku við að bætur lífeyrisþega eigi í kjölfar nýgerðra kjarasamninga aðeins að hækka um 4% sem gildir 4–5 þús. kr. hækkun á lægstu bótum. Hvernig ríkisstjórnin getur komist að þeirri niðurstöðu að 18 þús. kr. hækkun lægstu launa á vinnumarkaði samsvari hækkun bóta almannatrygginga um 4–5 þús. kr. á mánuði er óskiljanlegt. Sú upphæð er eins og við blasir aðeins lítill hluti þess sem samið var um í kjarasamningunum.

Það er því ljóst að ríkisstjórnin er með þessari ákvörðun sinni að ganga þvert gegn grundvallaráherslu og markmiðum kjarasamninganna, markmiðum sem hún áður hafði tekið undir og samþykkt. Með ákvörðun sinni er ríkisstjórnin að svipta lífeyrisþega mikilvægum og nauðsynlegum kjarabótum.

Alþýðusambandið, Öryrkjabandalagið og Landssamband eldri borgara krefjast þess að ríkisstjórnin standi við fyrri yfirlýsingar sínar og hækki bætur almannatrygginga til jafns við kjarasamninga, það þýðir hækkun um kr. 18 þús. kr. á mánuði fyrir þá sem eru á lægstu bótum.“

Hæstv. forseti. Það var því dapurlegt að heyra málflutning hæstv. ráðherra hér áðan og það er rangt sem ráðherra hefur sagt að ég hafi haldið því hér fram að núverandi ríkisstjórn hafi ekki gert neitt fyrir þessa þjóðfélagshópa, það er rangt. Það sem ég hef bent á er að sú leið sem ríkisstjórnin hefur farið gagnvart þessum hópum er að spara ríkissjóði 3,6 milljarða sem hægt er þá að fjármagna með öðrum vinsælum málum. Ég hélt að miðað við orð hæstv. ráðherra í aðdraganda síðustu kosninga hefðu menn ætlað að bæta í málaflokkinn en ekki að láta eitt koma í staðinn fyrir annað.

Hæstv. forseti. Það er því með fullkomlega málefnalegum hætti sem ég kem hér upp og gagnrýni þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem hæstv. ráðherra stendur að. Það er ekki sæmandi fyrir hæstv. ráðherra að tala með þeim hætti sem hún gerði hér áðan í garð okkar framsóknarmanna og jafnvel til þeirra viðsemjenda sem stóðu að samningnum árið 2006.

Ég vil að endingu, hæstv. forseti, benda á að Landssamband eldri borgara hefur sent þingflokkum stjórnarflokkanna bréf þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Vinnuhópurinn lítur svo á að hér sé um að ræða 9.100 kr. á mánuði sem upp á vanti að lífeyrisþegar fái þann lífeyri sem þeir ættu að fá vegna kjarasamninganna.“

Þetta segja eldri borgarar í röðum Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins og þeirra samtaka sem stóðu að samningunum 2006. Af hverju kemur hæstv. ráðherra hér upp og segir að við framsóknarmenn förum með staðlausa stafi? (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu höfðu eldri borgarar innan þessara flokka sem og þessar stéttir almennt miklar væntingar til ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin ætti að sjá sóma (Forseti hringir.) sinn í því að leiðrétta þá ósvinnu sem unnin var á dögunum án samráðs, vil ég segja, því að hæstv. ráðherra tilkynnti umræddum stéttum (Forseti hringir.) um þau kjör sem þær áttu að fá vegna nýgerðra kjarasamninga.