135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

almannatryggingar.

614. mál
[14:11]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér kemur út af fyrir sig ekkert á óvart að hv. síðasti ræðumaður vék ekki einu orði að því að á þeim tólf árum sem hann var í ríkisstjórn hafi bara einu sinni, í eitt skipti verið staðið við það að lífeyrir lífeyrisþega héldist í hendur við lágmarkslaun. Það væri ágætt að heyra svar hv. þingmanns við því: Hvernig stendur á því að á tólf ára ferli þeirrar ríkisstjórnar var einu sinni staðið við það að lífeyrir almannatrygginga héldist í hendur við lágmarkslaun? Ef við skoðum árin þar á undan, svo við tökum bara 1990–1996, þá var alltaf staðið við það og gott betur en það að lífeyrir lífeyrisþega héldist í hendur við lágmarkslaun.

En á fyrsta ári núverandi ríkisstjórnar, þegar búið er að setja fram verulegt fjármagn til þess að bæta það sem síðasta ríkisstjórn gerði ekki fyrir öryrkja, taka á ýmsum þáttum sem lengi hefur verið beðið eftir af hagsmunasamtökum, eins og makatengingu o.fl., á tæpu ári er búið að setja meira en 9 milljarða til þessa hóps, sem þeir sannarlega áttu skilið, þá hefur Framsóknarflokkurinn það eitt fram að færa að við séum að hlunnfara lífeyrisþega. Mér finnst nú, virðulegi forseti, að það sé verið að kasta grjóti úr glerhúsi þegar hv. þm. Birkir J. Jónsson kemur hér upp og skammar ríkisstjórnina fyrir að hafa ekkert gert fyrir lífeyrisþega. (Gripið fram í.) Ja, hafi gert lítið.

Ég minni á það sem ég hef sett fram, að það er ekki öll nótt úti enn þá. Í nefnd á mínum vegum er einmitt verið að skoða, í tengslum við kjarasamningana, lágmarksframfærslu sem á að taka mið af lægstu launum 1. júlí nk. Ég bið nú hv. þingmann að vera bara alveg rólegan, við skulum sjá hvað setur í þeim efnum, (Forseti hringir.) en hann á ávallt að muna að það hefur engin ríkisstjórn gert jafnmikið fyrir lífeyrisþega á jafnstuttum tíma (Forseti hringir.) og þessi ríkisstjórn.