135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

almannatryggingar.

614. mál
[14:14]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra vék hér mikið að fortíðinni og við skulum fara yfir það. Það voru mörg jákvæð skref stigin í kjarabótum aldraðra og öryrkja á síðustu tólf árum. Það mátti gera betur, það var sagt í aðdraganda síðustu kosninga, en staðreyndin er sú að árið 2006 náðu aldraðir og öryrkjar því fram að það yrði miðað við kauptryggingu. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði að það var í eina skiptið á þeim tólf árum sem lægstu bætur fóru upp fyrir lágmarkslaun.

Hæstv. ráðherra talaði í hneykslunartón um þann lélega árangur fyrrverandi ríkisstjórnar. En að hverju stendur þá hæstv. ráðherra í dag? Lægstu bætur eru komnar undir lágmarkslaun. Hæstv. ráðherra kemur hér og gumar af góðum árangri ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki, gagnrýnir í aðra röndina Framsóknarflokkinn fyrir að hafa einungis, stuttu fyrir síðustu kosningar eða árið 2006, gengið frá því að bætur almannatrygginga yrðu ekki lægri en lágmarkslaun og hneykslast á lélegum árangri fyrrverandi ríkisstjórnar og þar af leiðandi sjálfstæðismanna líka, en kemur svo hér upp og tilkynnir öldruðum og öryrkjum að bætur þeirra verði lægri en lágmarkslaun. Það er fyrsta verkefni þessarar ríkisstjórnar.

Er nema von að eldri borgarar í Samfylkingunni, að eldri borgarar í Sjálfstæðisflokknum, að Öryrkjabandalagið, að Alþýðusamband Íslands skuli senda svo harðorð mótmæli og kröfur um að þetta verði leiðrétt? Eða erum við framsóknarmenn og allir þessir hópar einhvers staðar úti á túni hérna í þessari umræðu? Við lítum svo á að það viðmið sem sett var árið 2006 hefði ekki átt að lækka enda er það algjörlega andstætt þeim málflutningi sem allir stjórnmálaflokkar hafa haft í málefnum eldri borgara og öryrkja. (Forseti hringir.) Það átti að bæta kjörin en ekki skerða þau með þeim hætti sem ríkisstjórnin hefur gert á þessu sviði kjara þessara hópa.