135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:26]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar féllu mörg stór orð og ekki var nú innstæða fyrir þeim öllum frekar en oft áður í svikabrigslum vinstri grænna á hendur Samfylkingunni sem við erum satt að segja farin að verða nokkuð vön hér í þingsölum.

Í því frumvarpi sem hér um ræðir er um einfalda tiltekt að ræða og verið að afskrifa kröfur sem, eins og fram hefur komið, er ólíklegt að hægt verði að innheimta.

Hv. þingmaður talaði hér af miklum móð um hvað þetta væri óskiljanleg ráðstöfun af hendi jafnaðarflokksins Samfylkingarinnar. En skýst nú alveg yfir þá staðreynd að hagnaður af sölu hlutabréfa er alfarið skattfrjáls í Noregi, svo dæmi sé tekið, þar sem flokksbræður hans sitja í ríkisstjórn.

Er hér kannski enn og aftur að sannast að í Vinstri grænum hér á landi höfum við afturhaldssamasta vinstri flokk í vesturálfu, þann sem virðist bera minnst skynbragð á alþjóðlega strauma jafnt í fyrirtækjarekstri og í fjármagnsflutningum, og er einhvern veginn mest utanveltu þegar kemur að því að bera skynbragð á það að saman geti farið hagsmunir almennings og hagsmunir fyrirtækja?

Það er a.m.k. greinilegt að félagar hv. þingmanns í vinstri grænum í Noregi hafa náð einhverri sýn á þetta mál þó að það sé ofviða hv. þingmanni að ná sömu sýn á það hér.

Við í Samfylkingunni leggjum reyndar ekki til að hagnaður af sölu hlutabréfa sé skattfrjáls eins og félagar hv. þingmanns í Noregi hafa gert. En það er fullkomlega eðlilegt að hv. þingmaður útskýri (Forseti hringir.) frekar fyrir okkur heimsmynd sína en að vera að kalla eftir að við skýrum þá heimsmynd sem við höfum.