135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[19:55]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt ábending að þetta er ekki skatturinn sjálfur en þetta er það sem ríkið getur horft á sem undirstöðu fyrir tekjuöflun sína. Þegar verið er að afskrifa með þessum hætti þá er það ekki lengur sem slíkur tekjustofn.

Ég hjó líka eftir því hjá hv. þingmanni að hann sagði að mörg lög væru gölluð og þar á meðal væru lögin um þennan tekjuskatt. Er það þá rétt leið að fella ákvæðin úr gildi vegna þess að þau eru að hans mati gölluð? Hefði ekki verið réttara að breyta þeim aðeins í þá veruna að þeir skiluðu eðlilegum skatttekjum til ríkisins?

Ég hugsa að flestum finnist mörg skattalög vera óréttlát. Ég veit að elli- og örorkulífeyrisþegar finnst það sem nú eru krafðir um endurgreiðslu á ofgreiddum lífeyri frá fyrri árum, tveggja til fimm ára gömlum, sem þeir eiga að standa skil á af litlum og lágum bótum sínum. Þeir mundu segja: Eigum við ekki að breyta þeim lögum? Af hverju er verið að breyta endurútreikningum á yfir 80% ellilífeyrisþega? Þetta eru greinilega kolvitlaus lög. Eigum við ekki líka að taka þau úr gildi, frú forseti?