135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samráð um lífeyrismál.

[10:59]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ekki er nú hæstv. utanríkisráðherra á réttri leið. Hér er ausið aur í allar áttir og reynt að grafa sig ofan í einhverjar skotgrafir. Mér finnst þetta ekki góð þróun, virðulegur forseti. Ef það á að ná samstöðu þarf að ræða saman. Þá þýðir ekkert að stilla flokkum svona upp við vegg eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur gert. (Gripið fram í: Stjórnarflokkarnir ná ekki saman.) Hæstv. utanríkisráðherra hefur stillt Sjálfstæðisflokknum upp við vegg í þessu máli með því að fara efnislega inn í þrjú atriði í málinu á opinberum vettvangi.

Til þess að lausn náist þurfa ríkisstjórnarflokkarnir fyrst að koma sér saman um hvað þeir vilja gera, það er númer eitt. Síðan þarf að tala við stjórnarandstöðuna og ná samstöðu við hana, það er númer tvö. Þetta er ferlið. Það þýðir ekkert að einn flokkur kljúfi sig svona út eins og Samfylkingin er að reyna að gera núna og stilli öðrum upp við vegg. Það verður engin lausn úr því.

Virðulegur forseti. Ég tel því miður að málið sé komið í þann farveg (Forseti hringir.) að við munum ekki sjá lausn fyrir þinglokin (Forseti hringir.) og það verði að nota sumarið til að ná samstöðu milli allra flokka og þá verður hæstv. utanríkisráðherra að láta af því háttalagi sem við sjáum hér.