135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

afbrigði um dagskrármál.

[11:09]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um hvort við eigum að taka mál á dagskrá sem í raun og veru hefur verið beðið eftir í vetur. Frá því að við afgreiddum lög um heilbrigðisþjónustu á stuttu sumarþingi fyrir tæpu ári síðan hafa orðið breytingar á lögum um almannatryggingar sem skipta upp lífeyristryggingum hjá almannatryggingum og sjúkratryggingar eiga að fara í sérstofnun. Þetta vitum við og búið er að bíða eftir þessu frumvarpi sem kom allt of seint fram. Þetta er þungt og mikið mál. Verið er að fara í mikla skipulagsbreytingar og ef ríkisstjórnin ætlar að standa við þær yfirlýsingar sem hún hefur ítrekað gefið, að afgreiða eigi málið núna á þessum fáu dögum sem eftir eru, þá tel ég það hneisu. Það er hneisa að mál af þessu tagi skuli ekki fá tíma til að fara til umsagnar og sé ekki unnið eins og vinna á (Forseti hringir.) mál af þeirri stærðargráðu sem þetta er. (Forseti hringir.) Því munum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði greiða atkvæði (Forseti hringir.) gegn því að það verði tekið á dagskrá undir þeim formerkjum ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) að afgreiða það núna.