135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

afbrigði um dagskrármál.

[11:10]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þingflokkur Framsóknarflokksins mun ekki styðja að þetta mál verði tekið til efnislegrar umfjöllunar. Þar með erum við ekki að taka afstöðu til málsins sjálfs enda ekki tímabært. Með þessu erum við að lýsa yfir að við teljum að þau vinnubrögð sem hér stefnir í séu ekki boðleg. Þetta er mál sem er að vissu leyti umdeilt, við vitum það. Það eru fimm þingdagar og þrír nefndadagar eftir. Við hefðum getað fallist á að mælt væri fyrir málinu og það væri sent til nefndar og til umsagnar. Síðan væri málið tekið fyrir á haustþingi í september því að með nýjum þingsköpum er opið fyrir þann möguleika að mál séu vakandi fram að næsta haustþingi. Það væru hin eðlilegu vinnubrögð. Það er algerlega óeðlilegt að ætla að klára þetta mál á þessum stutta tíma. Við áttum von á því að með nýjum þingsköpum yrði hætt að sýna þau vinnubrögð sem hér stefnir í þannig að við munum ekki styðja (Forseti hringir.) að þetta mál verði tekið fyrir.