135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[11:52]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra vísaði hér til lagabreytinga um heilbrigðisþjónustu og að allir þingmenn hefðu greitt þeim lagabreytingum atkvæði. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerðum það. Við gerðum það líka með breytingartillögum og sátum hjá við ákveðnar greinar og gerðum grein fyrir okkar afstöðu í því stutta ferli sem það frumvarp fékk hér á þinginu. Við gagnrýndum það mjög að lög um heilbrigðisþjónustu skyldu ekki hafa fengið betri og faglegri umfjöllun og unnin betur hér á þinginu.

Það sama gerum við varðandi þetta frumvarp. Þótt í ákvæði til bráðabirgða í lögum um heilbrigðisþjónustuna sé getið um þessa stofnun, og þar af leiðandi hafi verið vitað að þessar skipulagsbreytingar stæðu fyrir dyrum, þá hefur eftir sem áður komið í ljós að aðvaranir okkar við gildistöku laga um heilbrigðisþjónustuna, þ.e. að skiptingu á milli Tryggingastofnunar og sjúkratrygginga var ætlaður allt of skammur tími, voru á rökum reistar.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það hvort hann telji raunhæft að fylgja málinu eftir. Telur hann lýðræðislegt að mál af þessari stærðargráðu, skipulagsbreytingar af þessari gerð, séu afgreidd með þeim hraða hér inni á þinginu sem hann gerir ráð fyrir? Ég vil líka spyrjast fyrir um reglugerðir og hugmyndir um útfærslu. Eru þetta ekki mál af þeim toga að þingmenn verði að sjá meira á spilin til (Forseti hringir.) að átta sig á hvað býr þar að baki og hvaða hugmyndir eru uppi um útfærslu á (Forseti hringir.) lagagreinunum?