135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

staða tollgæslu- og lögreglumála á Suðurnesjum.

[13:43]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Árangurinn hjá embættinu á Suðurnesjunum hefur verið einstaklega góður enda hefur embættið ásamt embættinu á höfuðborgarsvæðinu fengið samfélagsverðlaun fyrir framgöngu sína. Þess vegna er mjög mikilvægt, ef ráðast á í breytingar, að þær verði vandlega undirbúnar.

Afstaða þingflokks Samfylkingarinnar til þessa máls hefur komið fram. Hún er sú að það sé faglega og fjárhagslega best að það sé ein yfirstjórn fyrir þeim málaflokkum sem heyra undir embættið í Keflavík. Sú afstaða hefur ekki breyst á nokkurn hátt og engin rök hafa í reynd komið fram sem réttlæta breytingu á þeirri afstöðu.

Þegar horft er til þróunar löggæslumála undanfarin missiri er það hins vegar mat mitt að við höfum misst embætti ríkislögreglustjóra langt umfram það sem hefði átt að gerast. Ég held að við þurfum núna að skoða það mjög vandlega að leggja niður embætti ríkislögreglustjóra í þeirri mynd sem það er. Hugmyndin með stofnun þess embættis á sínum tíma var að þar yrði til lítil samræmingarmiðstöð löggæslumála í landinu og það er sú leið sem Danir eru núna að hverfa aftur til. Þeir fara nú frá þessari miðlægu hugmynd með löggæslu, hverfa aftur til þess skipulags sem áður var. Staðreyndin er sú að fólkið í þessu landi vill grenndarlöggæslu fyrst og fremst, það vill vita af sínum löggæslumönnum en ekki hafa miðlæga löggæslu langt frá sinni heimabyggð og það er það sem við þurfum að sjá. Vandinn við embættið suður frá er fyrst og fremst sá, eins og Ríkisendurskoðun hefur komist að, að fjárveitingar þingsins hafa ekki fylgt þeim verkefnum sem þar hefur verið við að glíma og úr því þarf þingið að bæta.