135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:59]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og var ekki hægt að skilja annað en ýmis atriði væru í frumvarpinu sem hún gæti samþykkt. Það kom m.a. fram að hún hafi talað fyrir blandaðri fjármögnun í stað fastrar fjármögnunar eins og er í dag. Til þess að ná því markmiði sem hv. þingmaður talar um þá er einmitt verið að skipta fjármögnuninni með þessum hætti, að breyta um skipulag og skipta þjónustunni í kaupendur og veitendur. Þetta er sú leið sem við höfum valið til þess að ná því markmiði sem hv. þingmaður talar fyrir.

Hv. þingmaður kom mjög víða við í ræðu sinni og m.a. velti hún fyrir sér ýmsum atriðum sem eru fyllilega verð umræðu eins og t.d. varðandi gjaldtökuákvæði sem er núna í heilbrigðisþjónustulögum. Þau ákvæði koma síðan óbreytt inn í það frumvarp sem hér er til umfjöllunar.

Í sjálfu sér er því ekki ástæða til þess að taka þá umræðu sérstaklega núna. Þetta mál var rætt í fyrra. Á hinn bóginn verður líka að benda á að verið er að skoða gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Eins og hv. þingmanni er kunnugt um fer fram vinna í nefnd um greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustunni undir forustu hv. þm. Péturs Blöndals. Hið sama á við um rafrænu sjúkraskrána sem hv. þingmanni er mjög umhugað um og það á við um fleiri. Nú liggja fyrir drög að frumvarpi um sjúkraskrá.

Þetta mál velktist fyrir framsóknarmönnum í langan tíma, í mörg kjörtímabil, en loksins er að sjá einhvern afrakstur af því. Öll þessi mál eru því í vinnslu og við sjáum fyrir endann á þeim en það verður kannski ekki allt rætt í umræðunni um þetta frumvarp.