135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:09]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil gera athugasemd við orð hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur þar sem hún segist tala fyrir hönd þjóðarinnar, að hún óttist um heilbrigðiskerfið í höndum Sjálfstæðisflokksins.

Ég vissi að Álfheiður Ingadóttir væri þokkalega tengd en hún segist hér í ræðustóli tala fyrir hönd þjóðarinnar þar sem m.a. eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins sem er stærsti stjórnmálaflokkurinn í landinu með flesta kjósendur að baki sér, það er hluti þjóðarinnar.

Ég get fullyrt það, hæstv. forseti, að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talar ekki fyrir kjósendur Sjálfstæðisflokksins. Að leyfa sér að standa hér í ræðustól og tala fyrir hönd þjóðarinnar, þingmaður sem eru í níu manna þingflokki, er í sjálfu sér hlálegt.

Ég virði hins vegar þær skoðanir hv. þingmanns, hæstv. forseti, að hún sé ekki sammála því sem stendur í þessu frumvarpi. Það er hennar val að hún sé ekki tilbúin að taka þau skref sem frumvarpið gerir ráð fyrir og hún vilji tortryggja allt það sem þar stendur. En Álfheiður Ingadóttir, hv. þingmaður vinstri grænna, hæstv. forseti, talar ekki fyrir hönd þjóðarinnar, í það minnsta ekki fyrir hönd kjósenda Sjálfstæðisflokksins, hvorki í heilbrigðsmálum né öðrum. Það er nokkuð ljóst.