135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

niðurstaða nefndar um skattlagningu eldsneytis.

[14:05]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Sú nefnd sem hv. þingmaður vísaði til mun skila af sér innan mjög skamms tíma. Hún er bara alveg rétt að koma. Það eru reyndar tvær aðrar nefndir sem ég hef nefnt í þessu samhengi að undanförnu á svipuðu róli, annars vegar efnd um almenningssamgöngur og hins vegar nefnd um jöfnun á flutningskostnaði á landsbyggðinni. Þetta eru allt saman nátengd mál.

Uppleggið með þeirri nefnd sem fyrst var nefnd til sögunnar er að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem við tökum og hvernig við nýtum eldsneyti og þar með á losunina. Það getur síðan haft áhrif á hagsmuni þjóðfélagsþegna á mismunandi hátt. Ef við gerum breytingar á innheimtu gjalda á eldsneyti og farartækjum þá getur það haft áhrif á það hvernig fólk hagar sínum málum og þá skiptir verulega miklu máli að um valkost sé að ræða, annan valkost en einkabílinn og þar koma almenningssamgöngurnar til sögunnar. Á hinn bóginn eru almenningssamgöngur í þessu samhengi ekki valkostur alls staðar á landinu. Það er sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu í þéttbýlinu sem þær geta verið valkostur. Því er nokkuð vandasamt að útfæra tillögur um það hvernig gera eigi breytingar sem ná þessum markmiðum án þess að skaða hagsmuni einhverra sérstakra hópa. Auðvitað bæta ekki úr skák í þeim efnum þær miklu hækkanir sem orðið hafa á olíuverði eins og bar á góma fyrr í dag (Forseti hringir.) þó auðvitað geti þær verðhækkanir, frú forseti, sem þar koma fram líka haft áhrif á hegðun fólks í þessum efnum.