135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

samráðsvettvangur um efnahagsmál.

617. mál
[14:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra sem er þannig:

Hyggst ráðherra leita eftir aðild Bændasamtaka Íslands að samráðsvettvangi um efnahagsmál?

Ekki þarf að fara um það mörgum orðum hve alvarlegt efnahagsástandið er hér í dag. Verðbólgan mælist nú í tveggja stafa tölu og horfur eru á að svo verði áfram a.m.k. um hríð. Þetta gerist þrátt fyrir að stefna bæði ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans síðasta ár hafi verið sú að halda verðbólgunni innan 3% markanna. Vöruverð hækkar og fólk sér verðtryggð lán sín rjúka upp við hæstu vexti í heimi enda hefur fólk miklar áhyggjur af vaxandi greiðslubyrði af lánum sínum og lánhæfismat ríkissjóðs var lækkað í morgun.

Ég ætla ekki hér að tíunda nein hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar á síðustu árum þó að það væri hægt heldur hitt hvernig bregðast skuli við og ná á tökum á verðbólgunni, snúa hana niður og verja kaupmátt og kjör almennings á þeim viðsjárverðu tímum sem nú virðast fara í hönd. Að frumkvæði forsætisráðherra hefur verið skipaður samráðsvettvangur um efnahagsmál þar sem hafa setið á fundi auk hans aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar og fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, BSRB og BHM. Mér finnst þetta skynsamleg ráðstöfun af hálfu forsætisráðherra.

Forustumenn ríkisstjórnarflokkanna hafa ítrekað tekið sér í munn orðið „þjóðarsátt“, nú þurfi að vinna að þjóðarsátt og mikilvægt sé sem flestir aðilar komi að því máli. Ég vona reyndar að það sé ekki þjóðarsátt um óbreytt ástand.

Ég minnist þess að 1. maí birtist grein eftir formann Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra, um þjóðarsáttarsamninga. Þá minntist hún einmitt þjóðarsáttarsamninganna frá 1990–1991 þegar aðilar vinnumarkaðarins, ríki, sveitarfélög og samtök bænda sameinuðust gegn verðbólgunni og kölluðu eftir nýrri þjóðarsátt. Í máli formanns Samfylkingarinnar kom fram, að því er virtist, að það væri eðlilegt að Bændasamtökin ættu aðild að því starfi.

Þó að þjóðarsáttarsamningarnir frá 1990–1991 væru kannski gerðir við örlítið aðrar aðstæður tóku Bændasamtökin engu að síður þátt í þeim samningum og í því sem skipti sköpum um að sátt náðist. Reyndar urðu bændur að taka á sig ef til vill meiri kjaraskerðingu nokkur annar hópur sem aðild átti þar að. Ég er ekki að mælast til þess að það verði endurtekið. En allt þetta skiptir gríðarlega miklu máli, bændur og íslenskur landbúnaður, staða hans og framtíð í bæði nútíð og framtíð, matvælaöryggi þjóðarinnar og verð á landbúnaðarvörum. (Forseti hringir.) Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort hann hyggist ekki leita eftir aðild Bændasamtaka Íslands að samráðsvettvangi um (Forseti hringir.) efnahagsmál sem hefur tekið til starfa. (Forseti hringir.) Það mundi styrkja hópinn verulega að mínu mati.