135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

samráðsvettvangur um efnahagsmál.

617. mál
[14:25]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Þegar ríkisstjórnin var mynduð var ákveðið að setja á laggirnar þennan samráðsvettvang og hann hóf störf á sl. sumri. Efnahagsástandið í dag er alveg óháð tilvist þessa hóps en hann mun áreiðanlega nýtast vel til samráðs um þetta ástand eins og þegar hefur reyndar komið á daginn. Hugmyndin með honum var að leiða saman aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélögin — Samband ísl. sveitarfélaga á þarna fulltrúa — og svo fulltrúa úr ríkisstjórn Íslands til þess að fara sameiginlega yfir stöðu mála hverju sinni og gera það með reglulegum hætti. Bændasamtökin eru ekki þarna með, það er alveg rétt. Það er fullt af samtökum sem ekki eru með, það er ekki hægt að taka alla að sama borðinu. Að því leyti til er þetta svipað og fyrri spurningin sem ég svaraði hér í dag, það fer eftir því hvernig hlutirnir eru hugsaðir í byrjun.

Ég geri ekki lítið úr starfi Bændasamtaka Íslands, þvert á móti, ég tel að það sé mjög mikilvægt. Ríkisstjórnin mun hafa mjög gott samráð og eiga mjög gott samstarf áfram við þau samtök eins og við eigum í dag um svo fjölmörg mál, bæði lagafrumvörp og margt, margt fleira þannig að þetta dregur ekki úr því. Ef sérstök ástæða verður til að ræða við Bændasamtökin í stærri hópi vegna aðgerða sem tengjast núverandi efnahagsástandi þá gerum við það auðvitað, það er svo einfalt.