135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

samráðsvettvangur um efnahagsmál.

617. mál
[14:28]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að koma með þessa fyrirspurn og leggja fyrir hæstv. forsætisráðherra. Þó að samráðsnefndin hafi verið skipuð á sl. sumri undir allt öðrum formerkjum og við allt aðrar aðstæður en blasa við í dag tel ég mikilvægt að endurskoða hlutverk þessa samráðsvettvangs atvinnulífsins og launþega og stjórnvalda miðað við þær aðstæður sem við búum við nú. Við eigum að taka Bændasamtökin og bændastéttina með, sérstaklega með tilliti til þess að fyrir Alþingi liggur frumvarp um matvælatilskipun Evrópusambandsins sem hefur áhrif bæði á matvælaöryggi og matarverð í landinu. Það hefur ekki svo lítið að segja í því umhverfi sem við tölum um hér. Ef halda á verðbólgunni niðri eða ná henni niður verður það ekki gert nema með samstilltu (Forseti hringir.) átaki og bændur gegna þar mikilvægu hlutverki.