135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[14:39]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti minni hluta allsherjarnefndar um frumvarp til laga um samræmda neyðarsvörun. Frumvarpi til laga um neyðarsvörun var vísað að nýju til allsherjarnefndar að lokinni 2. umr. um málið. Við gerum athugasemdir við að í 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um að rekstur samræmdrar neyðarsvörunar skuli vera í höndum hlutafélags. Ég ítreka, skuli vera höndum hlutafélags um rekstur slíkrar stöðvar.

Þær upplýsingar hafa borist nefndinni að eignarhald á hlutafé í Neyðarlínunni hf. skiptist þannig að ríkissjóður eigi 73,6%, Reykjavíkurborg 10,5%, Landsvirkjun 7,9% og Orkuveita Reykjavíkur 7,9%.

Neyðarlínan fagnar frumvarpinu en gerir tvær athugasemdir. Við annarri þeirra hefur þegar verið orðið en ekki hinni en sú lýtur að orðalaginu „skuli vera í höndum hlutafélags“. Neyðarlínan gekk nú ekki lengra en að leggja til að orðalagið yrði „geti verið í höndum hlutafélags.“ Ekki var fallist á það í nefndinni.

Í umsögn ríkislögreglustjóra er gerð grein fyrir stofnun Neyðarlínunnar um rekstur neyðarsímsvörunar og þar er vísað til þess að Neyðarlínan eigi hlut í fyrirtæki og fjarskiptakerfi öryggis- og björgunaraðila á landsvísu, svonefnt Tetra-kerfi sem ég kem að síðar. En síðan segir orðrétt í umsögn ríkislögreglustjóra:

„Ríkislögreglustjóri telur mikilvægt, með hliðsjón af eðli starfseminnar, að forræði félagsins sé á hendi íslenska ríkisins.“ Tiltekur reyndar ekki hvort það eigi að vera hlutafélag eða annað félag en að það sé öruggt að það sé á forræði þess.

Fyrir hönd minni hlutans verð ég að taka undir þessi sjónarmið og gera athugasemdir við það að rekstrinum skuli komið fyrir í höndum hlutafélags. Ástæðurnar fyrir afstöðu minni eru þær að um er að ræða þjónustu við almannaheill. Öryggi borgaranna. Almannaþjónusta sem ómögulegt er að reka öðruvísi en af almannafé en ekki með hagnaðarvon að leiðarljósi líkt og í hlutafélögum. Við þetta bætist að að neyðarsvöruninni koma aðeins opinberir aðilar sem sinna löggæslu, landhelgis-, flugstjórnar- og heilbrigðismálum og annarri almannaþjónustu sem vöktunaraðilar koma fleiri að, þ.e. fyrir utan eignaraðilana, það eru frjáls félagasamtök sem sinna björgunarmálum í samfélagsþágu, í sjálfboðavinnu og af hugsjónum og hafa að leiðarljósi akkúrat enga hagnaðarvon í þessu dæmi.

Með því að skipa neyðarsímsvörun þannig að hún yrði rekin af hinu opinbera er tryggt að um starfsmenn þeirrar stofnunar sem sinnir almannaþjónustu giltu lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Enn fremur að um starfsemina giltu stjórnsýslulög og upplýsingalög sem ég tel afar brýnt á þessu mikilvæga sviði. Það er afar brýnt að aftengja ekki þessa almannaþjónustu þeim lögum sem gilda um opinberan rekstur. Það tryggir jafnframt réttaröryggi þeirra sem nýta sér þessa mikilvægu þjónustu og eru að kalla eftir neyðaraðstoð. Að þeir eigi athvarf í upplýsingalögum og stjórnsýslulögum ef út af ber.

Ég vil líka nefna það sem rökstuðning fyrir þessum sjónarmiðum að það hlýtur að vera eðlilegt, með vísan til 7. gr. frumvarpsins, að starfsfólk gæti að þagmælsku um vitneskju sem það fær í starfi og eðlilegt er að fari leynt. Jafnframt er kveðið á um að slík þagmælska haldist eftir að starfsfólk lætur af störfum.

Að mæla fyrir því að Neyðarlínan sem starfar að almannaþjónustu skuli vera í höndum hlutafélags hreint og klárt, og engar undanþágur frá því, er að mínu mati hrein kredda. Þetta eru bókstafstrúarbrögð. Kredda og bókstafstrúarbrögð sem þjóna engum skynsamlegum rökum. Það hefur hvergi komið fram í frumvarpinu eða í lögskýringargögnum með frumvarpinu til hvers það er að þessu sé skipað á þennan hátt. Það er algjörlega órökstutt. Ég ítreka enn og aftur að almannaþjónusta, samfélagsþjónusta sem þarna er stunduð, á að vera á höndum ríkisins í ríkisrekstri. Látum ekki kreddur afvegaleiða okkur í þessum efnum.

Frú forseti. Ég verð enn fremur að marggefnu tilefni að gagnrýna það enn og aftur að með frumvarpinu eru lagðar fjárhagslegar skyldur á sveitarfélögin sem mörg hver, allt of mörg, standa illa fjárhagslega, við vitum það öll sem hér störfum, án þess að sveitarfélögum séu tryggðar tekjur eða tekjustofnar til að mæta þeim óhjákvæmilegu fjárframlögum sem þarna fylgja.

Frumvarpinu fylgir lögum samkvæmt greining fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þar kemur skýrt fram að samhliða þessum lögum og samhliða starfsemi neyðarsímsvörunar eigi að byggja upp nýtt kerfi fjarskipta, öryggis- og björgunaraðila á landsvísu, svonefnt Tetra-kerfi. Inn í það kerfi þurfa sveitarfélögin að laga sig með tilheyrandi kostnaði og það verulegum kostnaði. Bæði við kaup á þessum stöðvum og við rekstur þeirra. Og síðan við þjónustugjöld eða gjald sem tekið er fyrir þessi fjarskipti. Fjárlagaskrifstofan kemst að þeirri niðurstöðu að þetta muni ekki hafa í för með sér fjárútlát fyrir ríkið en gleymir sveitarfélögunum. Enn og aftur gleymast sveitarfélögin.

Við þetta gerir Samband íslenskra sveitarfélaga athugasemdir í umsögn sinni, dags. 29. nóvember 2007. Í umsögninni kemur fram að frumvarpið geri ráð fyrir að allir viðbragðsaðilar verði samtengdir í einu samræmdu viðbragðskerfi í gegnum vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar, eins og mælt er fyrir um í 4. gr. frumvarpsins. Þar er átt við Tetra, fjarskipta- og staðsetningakerfið. Kemur beinlínis fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að í þessari kerfisupptöku Tetra-kerfisins muni felast verulegur kostnaður fyrir sveitarfélögin og er bent enn fremur á að afnotagjöld af Tetra-kerfinu séu mun hærri en af VHF-talstöðvum. Þeir benda líka á að sá kostnaður hafi ekki verið metinn á grundvelli samkomulags frá 30. desember 2005 um kostnaðarmat lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla gagnvart sveitarfélögunum.

Þetta gagnrýni ég harðlega. Þetta er vanefnd á samningnum frá 2005. Þetta gerist ítrekað. Sveitarfélögin gleymast. Þau verða út undan. Verið er að leggja á sveitarfélögin kostnað hér, kostnað þar og kostnað út um allt. Þegar saman er tekið standa verst settu sveitarfélögin ekki undir þessu.

Einnig kemur fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að árlegar heimildir samkvæmt fjárlögum til að endurgreiða vask á búnaði slökkviliða hafi verið lágar á undanförnum árum og alls ekki dugað til að greiða lögbundna endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Ég er ekki bara að tala um slökkvibíla heldur búnaðinn. Hluti af búnaði í þá hjálparbíla er auðvitað talstöðvar, Tetra-talstöðvar og þessi kerfi. Sambandið bendir á að setja verði gjaldskrá sem taki tillit til þessa og verði samræmd þannig að tryggt verði að einstök sveitarfélög greiði ekki hærri afnotagjöld fyrir hverja talstöð en aðrir viðbragðsaðilar. Svo mörg voru þau orð.

Ég vil líka í þessu samhengi leyfa mér að minna á bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga til fjárlaganefndar Alþingis sem er dagsett 19. nóvember 2007. Þar kvartar sambandið sárlega yfir þeim vanhöldum sem hafa orðið við gerð fjárlaga á endurgreiðslum virðisaukaskatts vegna kaupa á slökkvibifreiðum og búnaði slökkviliðanna.

Í því bréfi sambandsins til fjárlaganefndar Alþingis kemur fram að í árslok 2007 eigi sveitarfélögin óuppgerðar endurgreiðslur að fjárhæð 32 millj. kr. og það eru ekki ætlaðar nema 30 millj. kr. í þessar endurgreiðslur á fjárlagaárinu 2008. Þeir telja að einar 40 milljónir vanti upp á að rétt sé gefið í þeim málum. Þær byrðar er verið að leggja á sveitarfélögin, þessa neyðarsímsvörun, án þess að á móti komi framlög frá ríkinu eða tekjustofnar. Alþingi verður fyrr en seinna að fara að taka á þeim vanda. Ríkissjóður stendur vel og menn berja sér á brjóst og segja: Ríkissjóður stendur vel. En smærri sveitarfélög úti á landi og jafnvel víðar standa afar illa fjárhagslega.

Sömu sjónarmið koma fram í fylgiskjali með umsögn borgarstjórans í Reykjavík. Því fylgdi bréf slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins, Jóns Viðars Matthíassonar, dags. 28. nóvember 2007. Þar bendir hann á þá skyldu að viðbragðsaðilar skulu samkvæmt 4. gr. hafa aðgang að öryggis- og fjarskiptakerfi. Og síðan segir orðrétt, með leyfi frú forseta:

„Þótt tilgangur ákvæðisins sé góður og taka beri undir hann þá þarf að afmarka betur í hverju afgangurinn skuli fólginn og hvernig greiða skuli fyrir þann aðgang. Þá er nauðsynlegt að rýna betur í kostnaðaraukningu sveitarfélaga vegna þessa. Lagt er til að ríki og sveitarfélög sjái um aðgang viðbragðsaðila að kerfinu án þess að það endurspeglist í afnotagjöldum þeirra en á þann hátt verður best tryggð öflug notkun viðbragðsaðila á kerfinu. Einnig er nauðsynlegt að dómsmálaráðherra setji gjaldskrá fyrir víðtækari þjónustu til viðbragðsaðila og einnig fyrir afnotagjöld að öryggis- og fjarskiptakerfi samræmdrar neyðarsvörunar.“

Svo mörg voru þau orð. Það endurómar frá öllum sveitarfélögum og sambandi þeirra að verið sé að leggja fjárhagslegar byrðar á sveitarfélögin sem ekki hefur verið svarað með fjárframlögum eða tekjustofnum. Það er reyndar skoðun mín að þessi kostnaður ætti allur að vera á hendi ríkisins og í opinberum rekstri.

Í breytingartillögum okkar leggjum við til að 1. mgr. 8. gr. verði breytt á þann veg að rekstur samræmdrar neyðarsvörunar verði á hendi ríkisins og við leggjum til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi breytingu, með leyfi frú forseta:

„1. mgr. 8. gr. orðist svo:

Rekstur vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar skal vera í höndum ríkisins.“

Frú forseti. Mælirinn er löngu fullur hvað það varðar að ríkið sé að varpa verkefnum yfir á sveitarfélög án tekjustofna. Þetta gerist vikulega á þinginu ef ég má segja svo. Það er að koma inn ótrúlegur fjöldi þar sem mætti kalla minni háttar tilskipanir frá Evrópusambandinu sem leggur skyldur á sveitarfélögin. Yfirleitt eru þær keyrðar hér í gegn orðalaust eða orðalítið og samþykktar. En það er nánast undantekning ef hugað er að fjárhagslegum hagsmunum sveitarfélaga í þessum efnum.