135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[15:00]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil aðeins koma inn á það sem þingmaðurinn nefndi stuttlega í ræðu sinni og var í raun viðbrögð við málflutningi hv. þm. Atla Gíslasonar um það sem varðar fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Nú vill svo til að í nóvember sl. var gefin út af hálfu ríkisstjórnarinnar, þ.e. forsætisráðuneytinu, dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og skrifstofu Alþingis, Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa, grá bók, hálfgerð Grágás, sem á að vera einhver leiðarvísir til handa framkvæmdarvaldinu um það hvernig ganga eigi frá lagafrumvörpum og hvað eigi að koma fram í þeim. Á bls. 56 er m.a. birt samkomulag um kostnaðarmat lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla gagnvart sveitarfélögum. Þar segir skýrum stöfum:

„Ríkisstjórn Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga staðfesta hér með eftirfarandi samkomulag um kostnaðarmat lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla sem hafa í för með sér kostnaðaráhrif fyrir sveitarfélögin.“

Samkvæmt þessu á sem sagt að meta kostnaðaráhrifin af hálfu allra ráðuneyta um öll stjórnarfrumvörp og reglugerðardrög. Eins og hv. þm. Atli Gíslason vék að koma nánast vikulega inn í þingið frumvörp sem ekki uppfylla þessi skilyrði sem stjórnvöld hafa sjálf sett sér um góðan undirbúning þingmála. Ég hlýt að spyrja hv. þingmann að því: Hverju sætir það að slíkt gerist hér skipti eftir skipti að ríkisvaldið hunsar eigið samkomulag og ekki er einu sinni gerð tilraun til þess í meðförum þingsins að gera einhverja bragarbót á handvömminni af hálfu ráðherranna? Spurningum um það hver kostnaðaráhrifin eru á sveitarfélögin er ekki svarað. Samband íslenskra sveitarfélaga er ekki einu sinni virt viðlits í þingnefndinni og reynt að kalla fram svör við þessum (Forseti hringir.) spurningum sem eiga að sjálfsögðu að fylgja frumvarpinu. Ég hlýt að spyrja hv. þingmann að því hverju þetta sætir.