135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

störf þingsins.

[10:56]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að bregðast aðeins við svari hv. þm. Bjarna Benediktssonar varðandi fyrirspurn mína hér í upphafi fundarins. Ég verð fyrst að segja að það er auðvitað tómur útúrsnúningur þegar byrjað er að snúa þessari umræðu upp á þá sem hafa efasemdir um veru NATO og íslensku friðargæslunnar í Afganistan og fara að tala um hvernig ástandið var 2001.

Það er áreiðanlega enginn skoðanaágreiningur milli mín og hv. þm. Bjarna Benediktssonar um það að ástandið í Afganistan árið 2001 var skelfilegt undir stjórn talibana. Um það snýst þetta mál ekki heldur núverandi stríðsrekstur og hvort hann skilar einhverjum árangri og hvort íslensku friðargæsluliðarnir séu þarna í samræmi við íslensk lög um friðargæsluna. Við höfum haft efasemdir um það og gagnrýnt að vera íslenskra friðargæsluliða í Afganistan sé ekki í samræmi við lögin um friðargæsluna. Það hefur ekkert með ástandið í Afganistan árið 2001 að gera og það er útúrsnúningur að fara í umræðuna á þeim forsendum.

Jafnvel þótt ástandið hafi verið skelfilegt á tilteknum tíma þá hlýtur maður samt að spyrja: Er þá allt leyfilegt? Hvað sem er? Og finnst mönnum allt í lagi að fórna lífi óbreyttra borgara (Gripið fram í.) og virða ekki Genfarsáttmálann frá 1949? Þess vegna var spurning mín þessi, hvort þessi friðargæsla sé sú sem íslensk stjórnvöld vilja vinna að og telja sig sæmd að. Ég fékk ekkert svar við þeirri spurningu, væntanlega vegna þess að menn skammast sín fyrir málið.

Sjá formaður utanríkismálanefndar, utanríkismálanefnd og meiri hlutinn hér á Alþingi ekki í hvers konar fúafen þetta stríð er komið? Svona stríðsrekstur skilar engum árangri. Það hefur ekkert gerst í friðarátt í þessu landi síðan 2004. Forseti Afganistans hefur haldið því fram í fjölmiðlum að undanförnu að þetta sé komið í tómt óefni. Samt sem áður berja menn hausnum (Forseti hringir.) við steininn hér á Vesturlöndum undir stjórn hernaðaríkisins Bandaríkjanna.