135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

lengd þingfundar.

[11:19]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Menn ræða hér fundarstjórn forseta en eru í raun ekkert að ræða um fundarstjórn forseta. Menn eru að ræða um þingsköpin, menn eru að ræða um eitthvað allt, allt annað. (Gripið fram í.) Ég undirstrika það að forseti bar það fram í upphafi fundar hvort einhver hefði við það að athuga að fundi yrði lengur fram haldið og hvort menn óskuðu eftir atkvæðagreiðslu. Það óskaði enginn eftir því.

Ég skora á forseta að halda áfram stjórn fundarins og taka fyrir næsta dagskrárlið en sérstaklega finnst mér slæmt að þingmenn skuli fara fram úr ræðutímanum þegar þeir kvarta undan því að það náist ekki að klára umræðuna.