135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[12:39]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er algjörlega réttmæt ábending frá hv. þingmanni og skýrist kannski fyrst og fremst af því að þegar verið er að vinna breytingartillögur af þessu tagi eru þær oft unnar undir miklu álagi. Ég vil meina að hér geti ég gert betur og kallað kaflann Leikskólabörn og fjallað um rétt leikskólabarna og rétt leikskólabarna með sérþarfir. Ég tel það betra en sú tillaga sem ég geri hér og hugleiði hvort ég láti ekki prenta upp breytingartillöguna. Því ég er sammála þeirri hugmyndafræði sem hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni, þ.e. að of sterk skólamiðun á leikskólastigi sé varhugaverð. Ég tek í sjálfu sér undir með þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður talaði fyrir. Ég hefði kannski viljað, um leið og ég þakka henni fyrir ábendinguna, að hún hefði farið meira inn í efnisþætti kaflans, þ.e. ekki hvað síst hugmyndafræðina sem ég set í orð í greininni Nemendur með sérþarfir þar sem ég geri ráð fyrir því að nemendur eða leikskólabörn eigi rétt á því að komið sé til móts við þarfir þeirra í almennum leikskólum án aðgreiningar og án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis og að heyrnarlausum nemendum skuli tryggt málumhverfi svo þeir fái notið þeirrar menntunar og þeirra leikskilyrða sem leikskólinn hefur upp á að bjóða. Og af því hv. þingmaður er 1. flutningsmaður tillögu um táknmál og rétt táknmáls og stöðu þess í menntakerfi okkar og annars staðar hefði ég viljað fá sjónarmið hv. þingmanns varðandi þennan þátt greinarinnar af því að ég tel meiri hlutann ekki ganga nógu langt í þessum efnum í breytingartillögum sínum.