135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[21:53]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði af athygli á þessa merku ræðu hv. þm. Bjarna Harðarsonar um frumvarp til laga um grunnskóla. Það skal hins vegar játað að mér virtist ræða hans varða afskaplega afmarkaðan þátt frumvarpsins og í rauninni bara eina af þeim 29 breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur fram. (Gripið fram í.) Ég er ekki að gagnrýna það, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir.

Mig langaði til að spyrja hv. þingmann af því að ég stend að breytingartillögu sem mælir fyrir um að starfshættir grunnskóla skuli mótast af kristnum arfi íslenskrar menningar og ég er afar stoltur af því að flytja þá tillögu: Er það ekki rétt skilið hjá mér, í ljósi þeirrar ræðu sem hér var haldin, að hv. þingmaður hyggist styðja þá breytingu?