135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[22:20]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svarið er nei. Ég treysti alveg 17. gr. og ég átta mig alveg á því að meta þarf hvert tilvik og að það sé gert með hag barns að leiðarljósi og það sé gert að mati sérfræðinga. Ef ekki finnst úrræði innan almenna skólans er þetta „eða“ í 42. gr. — það er eðlilegt að það standi „eða“ þ.e. að stofna til reksturs sérskóla þegar almennt nám og kennsluhættir hæfa ekki þörfum eða hag nemenda. En það segir sig sjálft að aldrei verður stofnaður sérskóli utan um einn nemanda. Ég sé það fyrir mér að auðvitað verður ekki stofnaður sérskóli utan um einn nemanda eða tvo, en þá verður sá skóli engu að síður eða það sveitarfélag að finna úrræði innan grunnskólans. Ef hann getur ekki fundið það í sínu eigin sveitarfélagi þarf að leita eitthvert annað, til annarra grunnskóla sem hafa þá meira bolmagn eða meira svigrúm til að veita það úrræði. Það sé á ábyrgð þess sveitarfélags þar sem viðkomandi nemandi á lögheimili að málið leysist en nemandinn sé ekki einhvers staðar í reiðileysi, jafnvel utan skóla.