135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[23:42]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir þá ósk sem hér hefur komið fram hjá þingflokksformanni Vinstri grænna, Ögmundi Jónassyni. Fyrr á þessum fundi bar forseti upp spurningu um hvort það væri í lagi að halda hér áfram fundi fram eftir kvöldi. Alla vega gerði ég mér ekki grein fyrir því að í því fólst að fara ætti fram yfir miðnætti og hefði ekki samþykkt það.

Við erum búin að biðja um það, virðulegi forseti, að fá tvöfalda umræðu um framhaldsskólafrumvarpið því að það er geysilega umdeilt og m.a. kom núna rétt áðan í tölvupósti sérstök yfirlýsing frá Félagi framhaldsskólakennara þar sem þeir fara fram á að frumvarpinu verði frestað. Það eru miklar deilur um það í samfélaginu. Ég tel ekki boðlegt að við ræðum hér í skjóli nætur svo umdeilt mál og þar með í tvöföldun ræðutíma sem við höfum beðið um í (Forseti hringir.) ljósi umfangs þessa máls.