135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

tilkynning um dagskrá og tilhögun þingfundar.

[10:40]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að það verði að fara að koma á endurmenntunarnámskeiði í lestri og forsetinn eigi að vera með fyrstu mönnum á því. Það stendur hér algerlega skýrt að tillagan hlýtur að þurfa að vera um lengri fundartíma. Það er hvergi til í þingsköpunum að forseti geti ákveðið eða salurinn þótt með atkvæðagreiðslu sé að einhver tiltekin dagskrá þingfundar skuli tæmd hvað sem tautar og raular. Það er ekki til. Þetta er óefnisleg ómálefnaleg tillaga, hefur enga stoð í þingsköpum eins og forsetar eru að reyna að móta, alveg nýja hefð. Það er algerlega ljóst að það sem forseti getur borið undir atkvæði er lengri fundartími, lengri en hvað? Lengri en til kl. 8 síðdegis sem er hin almenna regla eða miðnættis á þriðjudagskvöldum. Forseti getur ekki haft þetta svona. Það er steypa, það er þvæla að reyna að láta líta svo út eins og þingið geti samþykkt að klára dagskrá. Það er bara út í loftið, það stangast á við veruleikann og tæki af mönnum allan eðlilegan rétt.