135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

tilkynning um dagskrá og tilhögun þingfundar.

[10:43]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Það kemur skýrt fram í þingsköpum að þessi tillaga stenst ekki. Ef menn velkjast svo í vafa um það leita menn í lögskýringargögn og hvað er sterkasta lögskýringargagnið í þessu máli við skýringu á þingsköpunum? Það eru auðvitað ræður hæstv. forseta Sturlu Böðvarssonar sem segir það beinlínis orðrétt að næturfundir á Alþingi heyri sögunni til. Það kemur enn fremur fram í ræðum hans að það eigi að skipuleggja tímasetningu þingfunda fyrir fram svo þingmenn geti sinnt fjölskyldu sinni. Í þriðja lagi kemur fram í ræðum hæstv. forseta Sturlu Böðvarssonar að lengri fundir eigi að leggjast á þriðjudaga, ekki aðra daga vikunnar. En umfram allt: Næturfundir eiga að heyra sögunni til og herra forseti á að ákvarða fyrir fram, samkvæmt lögskýringargögnum, tímalengd þingfundar.