135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afbrigði um lengd þingfundar.

[10:51]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er farið yfir fundarstjórn forseta og vitnað í þingsköpin sem nú hafa nýlega tekið breytingum. Það er mikil rangtúlkun á þingsköpunum að halda því fram að það séu engar heimildir sem standi því að baki að fundir standi lengi inn á kvöldið eða eftir atvikum fram yfir miðnætti. Það er mikil rangtúlkun.

Það er alveg skýrt samkvæmt 10. gr. þingskapalaganna að í ákveðnum tilvikum, nefnilega á þriðjudögum getur forseti (Gripið fram í.) ákveðið að fundur standi til klukkan tólf án þess að bera málið undir þingið. Geri hann tillögu um það öðru leyti að fundur standi lengur þá þarf einfaldlega meiri hluta á þinginu.

Auðvitað er gert líka ráð fyrir því í þingsköpunum að þingflokkarnir geti náð samkomulagi um það hversu lengi þingfundir standa. (Gripið fram í.) En þegar ekkert slíkt samkomulag liggur fyrir ber forseti upp tillögu um lengri fundartíma. Það er alveg ljóst öllum þeim sem eru í salnum að það er grundvöllur þeirrar umræðu sem hér fer fram, að þingfundur (Forseti hringir.) getur í þessu tilviki staðið þangað til dagskrá er lokið (Forseti hringir.) en hann þarf ekki standa svo lengi. Dæmið höfum við einmitt frá því í (Forseti hringir.) gærkvöldi þegar dagskráin var ekki tæmd.