135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

Suðurstrandarvegur.

[11:20]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra, Kristjáns L. Möllers. Ég minnist þess af því að ríkisstjórnin á afmæli í dag, er ársgömul, að oft fór þessi hæstv. ráðherra á rósrauðu skýi í yfirlýsingum sínum, lofaði framkvæmdum hér og þar sem oft og tíðum höfðu verið ákveðnar í fyrri ríkisstjórn en nú fer hann mikinn í að — ég vil ekki kalla það að svíkja heldur að fresta og draga til baka.

Einn sá vegur sem lofað var í tengslum við mótvægisaðgerðir er Suðurstrandarvegur frá Þorlákshöfn til Grindavíkur, athafnavegur, ferðamannavegur, vegur sem er mikilvægur fyrir kjördæmið. Nú kom fram nokkuð undarlegt í viðtali við Stöð 2 í gær. Þann 13. mars kom fram í tilkynningu frá samgönguráðuneytinu að fyrri áfanginn yrði boðinn út um næstu mánaðamót, þ.e. fyrir tæpum tveimur mánuðum, og sá síðari í júní. Nú kannast hæstv. ráðherra ekkert við þetta lengur og segir, með leyfi forseta: „Nú man ég ekki alveg eftir því hvort það var. Ég held það hafi verið þá einhver mistök hjá mér ef það hefur verið,“ — segir hann. — „En við verðum auðvitað að hafa það huga að þegar ríkisstjórnin tók þessa ákvörðun um að flýta öllum þessum framkvæmdum þá settum við mikla pressu á Vegagerðina og hönnuði hennar.“ Ég vil fá það skýrt fram frá hæstv. ráðherra: Hvað hefur nú gerst með Suðurstrandarveginn? Hvers vegna er honum frestað? Hvenær stendur hæstv. ráðherra og ríkisstjórn við þá yfirlýsingu sem hún gaf vegna mótvægisaðgerða á niðurskurði af þorski? Hvergi var meira skorið niður en í Grindavík af þorskveiðiheimildum og þessi vegur væri mikilvæg mótvægisaðgerð hvað varðar þau byggðarlög og Suðurkjördæmi.