135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

staðan á fasteignamarkaðnum og Íbúðalánasjóður.

[12:14]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Góður maður sagði eitt sinn að það mætti líkja starfsemi banka við hegðun manns sem lánaði manni regnhlíf þegar sól skini í heiði en tæki hana af manni um leið og byrjaði að dropa. Það er í sjálfu sér að hluta til í eðli banka að framboð þeirra á lánum endurspeglar þann aðgang sem þeir hafa sjálfir að ódýru lánsfé og við sjáum afleiðingar þess núna í lánum bankanna til íbúðakaupa á Íslandi nú rétt eins og við sjáum það víða annars staðar í Evrópu. Út af þessu hafa stjórnvöld alls staðar í norðanverðri Evrópu gripið inn í íbúðalánamarkað til að skapa þar aðstæður fyrir stöðugt framboð íbúðalána og til að tryggja það að kjör séu þar jafnframt stöðug vegna þess að almenningur á meira undir stöðugleika í þessu efni en flestu öðru.

Við væntum þess auðvitað að Eftirlitsstofnun EFTA taki mið af þessum staðreyndum og þeirri sérstöðu íslensks íbúðalánamarkaðar að það er bara einn íbúðalánveitandi á markaðnum. Það er bara eitt fyrirtæki sem veitir íbúðalán sem það endurfjármagnar á markaði og það er Íbúðalánasjóður. Bankar hafa vissulega veitt íbúðalán en þau hafa verið veitt úr þeirra eigin bókum án þess að þau séu endurfjármögnuð með sama hætti.

Það er mjög mikilvægt að við gætum þess í því verki sem fram undan er að standa vörð um það grundvallaratriði að Íbúðalánasjóður veiti áfram heildstæða þjónustu og allir geti fengið lán úr Íbúðalánasjóði. Það er einnig mikilvægt að þær breytingar sem á honum verði gerðar miði einvörðungu að því að mæta þeim athugasemdum sem réttmætar eru í ljósi Evrópuréttar. Íslensk stjórnvöld munu að sjálfsögðu verja það svigrúm sem þau hafa haft og þurfa að hafa til lengri tíma litið til að standa vörð um öfluga íbúðalánastarfsemi á íslenskum markaði.