135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afstaða ríkisstjórnarinnar til hrefnuveiða.

[12:36]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er sammála því að ágreiningur í ríkisstjórninni getur að sjálfsögðu skaðað hana og ágreiningur um þetta mál getur skaðað hana talsvert mikið úti í heimi. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að það verði mjög erfitt fyrir okkur að hafa eina þjóðarsál, eins og hv. málshefjandi orðaði það, í nákvæmlega þessu máli.

Hæstv. forsætisráðherra segir hér að enginn tali um að hér sé ekki um sjálfbærni að ræða. Um það mál vil ég segja þetta: Það er enginn að tala um að það skaði hrefnustofninn þó að veidd séu úr honum 40 dýr en þessar veiðar eru ekki undir yfirskrift sjálfbærrar þróunar. Hvers vegna ekki? Vegna þess að það er ekki tekið mið af hagrænum þáttum og félagslegum. Það er ekki verið að skoða málin heildstætt. Það er ekki verið að skoða á hvern hátt þessar hrefnuveiðar skaða þau hvalaskoðunarfyrirtæki sem starfa úti um land. Hvalaskoðunarfyrirtækin segja okkur að hrefnum hafi fækkað eftir að veiðar hófust. Skoðararnir, forvitnu dýrin, eru veidd fyrst. Það eru þau dýr sem hafa verið að sjást í hvalaskoðunarferðunum og við fáum upplýsingar um að fyrstu hrefnuveiðibátarnir hafi farið út á Faxaflóa á hvalaskoðunarmið. Ég spyr: Hvers vegna voru ekki settar reglur um það í reglugerðinni sem gefin var út 19. maí að forðast ætti hvalaskoðunarsvæðin? Það eru engar reglur um takmörkun á svæðum í reglugerðinni, það eru engar reglur um veiðarnar, þetta er ámælisvert, og þær eru ekki undir hatti sjálfbærrar þróunar. Það þykir mér mjög miður.

Það má benda á að æðarfuglinn er alfriðaður vegna þess að hann gefur meira af sér lifandi en dauður. Kannski er það svo með hrefnurnar líka.