135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afstaða ríkisstjórnarinnar til hrefnuveiða.

[12:41]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Vegna orða síðasta ræðumanns vil ég leyfa mér að setja fram eina spurningu í upphafi máls míns: Hefur einhver heyrt talað um að Norðmönnum líði illa út af því að talað sé illa um þá vegna hrefnuveiða? Ég held að sú umræða sé alls ekki uppi.

Við þurfum einfaldlega að stunda eðlilegar veiðar á þeim dýrastofnum sem við getum einu nafni kallað sjávarspendýr. Ég held að það sé kominn tími til að loðnusjómenn bjóði Samfylkingunni, annaðhvort í heilu lagi eða í þeim áföngum sem (Gripið fram í.) þingmönnum gagnast, að fara með loðnuveiðiskipunum út á miðin og kynna sér hvernig lífríkið lítur út.

Fyrir rúmum 50 árum var hnúfubakur friðaður hér við land. Honum hefur fjölgað alveg gífurlega og hann er stór afræningi í loðnustofninum sem hefur síðan áhrif á nýtingu okkar á þorskstofninum o.s.frv. (Gripið fram í.) Hvalastofnar almennt hafa áhrif í lífríkinu. Selastofnar sem nú eru friðaðir í Norður-Atlantshafinu og Íshafinu vaxa sem aldrei fyrr. Þetta eru einfaldlega rándýr sem lifa á lífríkinu. Maðurinn er það í sjálfu sér líka, hann lifir á lífríkinu að stórum hluta og nýtir það. Það er alveg ljóst að óheftur vöxtur sjávarspendýra hér við land mun valda okkur vaxandi skaða, það er óhjákvæmilegt. Ég held að það væri vel til fundið að bjóða ráðherrum Samfylkingarinnar og samfylkingarþingmönnum í útsýnisferð um hið raunverulega (Forseti hringir.) lífríki Íslands en ekki ímyndunarveiki sem á að víkja til hliðar.