135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[15:40]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Ég verð að segja að það er á margan hátt sorglegt hvernig þessi umræða fer hér af stað. Við þekkjum þessa umræðu úr störfum menntamálanefndar vegna þess að það var að sjálfsögðu lagt upp með það í upphafi að ná sem allra mestri sátt í nefndinni um öll skólafrumvörpin. Það leit afskaplega vel út með það eftir 1. umr. hér í þingsal vegna þess að fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þeirri umræðu, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, talaði á þeim nótum. Það gaf okkur miklar og góðar vonir um að hér næðist mjög víðtæk og pólitísk sátt um öll þessi frumvörp. Það er auðvitað afar mikilvægt vegna þess að það má ekki vera þannig að skólasamfélagið geti átt von á því að öllu saman verði rústað eftir einhver ár vegna þess að stjórnmálaflokkarnir séu ekki sammála um meginatriði málsins.

Ég ætla að leyfa mér að vera svo bjartsýnn að segja að þrátt fyrir málflutning og álit minni hluta menntamálanefndar séum við sammála í grundvallaratriðum um það hvert við viljum fara, þ.e. við viljum auka frelsi framhaldsskólans um eigin málefni. Við viljum jafngilda bóknám og verknám og þar með stórefla starfsnámið í landinu. Við viljum efla menntunina. Við viljum skila nemendum út úr skólakerfinu öflugri en nú.

Þess vegna verð ég að biðja hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að átta sig á því að það er ekki gott að sitja undir því þegar hv. þingmenn koma og snúa öllu á haus, alveg sama hvað við hv. þingmenn er sagt, alveg sama hvaða texti er settur í lagagreinar eða nefndarálit, því skal samt haldið fram að það sé stefna okkar og markmið að skerða íslenska stúdentsprófið. Vegna þess að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór að vitna í að ýmsir hefðu einhvern tímann sagt eitthvað — og var hún þá aðallega að tala um hæstv. menntamálaráðherra — þá vil ég biðja hv. þingmann um að rifja upp hvað ég hef sagt hér um þessi mál, m.a. um þessa fullyrðingu sem hún fór hér með. Hún ásakaði og gerði okkur nokkrum hv. þingmönnum upp skoðanir en bað hins vegar um að það yrði ekki gert við sig.

En við þekkjum hins vegar málflutninginn frá þeim stjórnmálaflokki sem hv. þingmaður kemur úr og þetta er býsna algengt þar, að gera öðrum upp skoðanir en þola síðan ekki að það sé rökrætt því að þá er verið að gera hv. þingmanni upp skoðanir. Það má að sjálfsögðu ekki vegna þess að heilagleikinn er mjög mismunandi í þessum þingsal. (Gripið fram í.)

En ég ítreka að ég leyfi mér að vera bjartsýnn á að megintilgangurinn sé sameiginlegur. Tveir stjórnarandstöðuflokkar hafa þó metið það svo að þeir gætu hugsanlega reynt að veiða í gruggugum sjó eitthvað sem gæti skilað þeim áfram. Ég held hins vegar að málflutningur þeirra muni virka þveröfugt vegna þess að á honum er ekki byggjandi. Nefndarálitið ber það með sér að hér er verið að leita að ágreiningi og ef hann finnst ekki í textum þá er bara fullyrt að það eigi samt sem áður að vera þannig.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir segir m.a. að vissulega sé stúdentsprófið afskaplega fjölbreytt í dag og að það verði enn fjölbreyttara með því frumvarpi sem hér verður væntanlega samþykkt á næstunni. Það sé af hinu góða. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni. Ég held að það sé af hinu góða og sé afar mikilvægt en svo er bætt við að það geti hins vegar haft hinar verstu afleiðingar.

Ef við erum alltaf svo hrædd við framtíðina og treystum engum til þess að leiða okkur áfram í framtíðinni og einna síst þeim sem eru á vettvangi, þá skil ég vel þennan ótta. Ég finn hins vegar ekki fyrir þessum ótta. Ég er mjög bjartsýnn á að skólasamfélagið á framhaldsskólastigi á Íslandi geti leitt þessa vegferð til góðs. Af hverju segi ég það? Vegna þess að ég tel mig tala af töluverðri reynslu. Ég hef tilheyrt þessu skólasamfélagi, ég hef verið á þessari vegferð og ég hef séð þegar skólarnir hafa haft frelsi til þess að þróast til hvers það hefur leitt. Það er í raun og veru grundvöllurinn fyrir því framhaldsskólakerfi sem við höfum í landinu.

Við áttum hér nokkra menntaskóla fyrir ekki mjög löngu síðan. Þeir sprungu, skólakerfið var að springa. Sem betur fer var gefið frelsi til þess að þróa framhaldsskóla og þá kom fjölbrautakerfið upp. Þá kom það einingakerfi upp sem nú ríkir í framhaldsskólunum. Það var þróað innan framhaldsskólanna. Það var ekki Alþingi sem kom með í einhverjum lagatexta nákvæmar fyrirskipanir um það hvernig þessir hlutir ættu að vera og hvernig þeir ættu að þróast.

En það skyldi þó ekki vera að meginandstaða hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sé í raun og veru sú að það sé skortur á miðstýringunni í frumvarpinu sem sé ástæðan fyrir andstöðunni, að hv. þingmaður þori ekki að koma hreint fram og segja að það sé þess vegna. En mér heyrist að undirtónninn sé sá að það þurfi í raun og veru að mati hv. þingmanns að setja í lagatextann hvert einasta skref sem stíga eigi í þróun framhaldsskóla á Íslandi. Ég lýsi því yfir að ég er algjörlega andsnúinn slíku. Ég tel að það sem sé brýnast í þróun framhaldsskóla á Íslandi í dag sé að losa um of mikla miðstýringu, gefa aukið frelsi út í skólaumhverfið.

Og ég verð að segja alveg eins og er að ég er á margan hátt miður mín yfir bréfi sem sent var til okkar allra þingmanna undir yfirskriftinni Opið bréf Félags framhaldsskólakennara til þingmanna. Ég vil vera hreinskilinn með það. Ég sagði áðan að ég tilheyrði þessu samfélagi og mér bregður þegar ástandið er þannig í forustu eins undirfélags eða deildar, eða hvað sem við köllum það, innan Kennarasambands Íslands, að vantraustið til skólasamfélagsins er með slíkum eindæmum. Það hlýtur einhver skýring að vera á þessu. Ég held að hún geti hugsanlega legið í því að samskiptin milli þessa félags og menntamálaráðuneytisins hefur um nokkurt skeið ekki verið með þeim hætti sem æskilegt er, því miður.

Þá er það að sjálfsögðu verðugt verkefni að bæta úr því vegna þess að það er algjörlega klárt að frumvarpið sem hér liggur fyrir og boðar miklar breytingar, skapar gífurleg tækifæri, skapar möguleika á því að gera framhaldsskólana miklu öflugri, gefa þeim tækifæri til þess að sækja fram. Það hefur því miður ekki verið nægilega öflugt að undanförnu, verður ekki gert nema með samstarfi allra þessa aðila. Þess vegna er það m.a. gert í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar að leggja sérstaka áherslu á það hvernig þetta skuli fara fram, þ.e. að ráðuneytið, framhaldsskólakennararnir og skólameistararnir eða stjórnendurnir í framhaldsskólunum myndi saman hóp sem leiði þessa innleiðingu. Þessir hópar stjórni þróuninni og tryggi að skólarnir verði sem mest í takt. Allt er þetta skráð í nefndarálit meiri hlutans.

Ég ætla áfram að leyfa mér að vera bjartsýnn þótt það sé kannski algjörlega borin von að geta haft áhrif á fulltrúa minnihlutaflokkanna í menntamálanefnd, þá tvo sem þar eru í minni hluta. Ef það er rétt sem hér hefur komið fram að það skipti engu máli hvað skrifað er og hvað sagt er þá hefur þessi bjartsýni kannski ekkert upp á sig. En ég ætla að leyfa mér að hafa hana meðan stætt er og vona að þegar hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, sem er talsmaður Framsóknarflokksins í þessu máli, kemur hér fram — að það sé eitthvað ljós í málflutningnum. (HöskÞ: Að sjálfsögðu.) Það er mjög mikilvægt að allir þeir sem vilja fara þessa leið og treysta framhaldsskólasamfélaginu til þess að leiða okkur áfram, láti það koma fram en týni ekki sjálfum sér í einhverjum málatilbúnaði sem er víðs fjarri raunveruleikanum. Það er grundvallaratriði.

Ég sagði áðan að ég væri á margan hátt mjög miður mín yfir því opna bréfi sem við fengum frá Félagi framhaldsskólakennara. Ég ætla ekki að fara yfir það í smáatriðum en ég ætla hins vegar að vekja athygli á nokkrum atriðum. Ég verð að segja alveg eins og er að ef þetta eru upplýsingar sem hinn almenni kennari fær um það frumvarp sem hér liggur fyrir og um þá vinnu sem átt hefur sér stað í menntamálanefnd — ekki bara á formlegum fundum hennar heldur í samráði við ýmsa aðila — þá er að miður. (HöskÞ: Menn lesa það sem kemur frá Alþingi.) Það er grundvallaratriði þegar við erum í alvarlegri umfjöllun um alvarleg mál sem skipta okkur miklu máli þá verða allir aðilar að átta sig á því að okkur ber að fagna því sem jákvætt er og samstaða næst um. Það hlýtur að verða fyrsta atriðið, að fagna því sem næst rétt fram og vekja athygli á því. Síðan er auðvitað eðlilegt að hagsmunafélög veki athygli á því sem betur má fara. En að gefa það í skyn að fólk sé í hópi sem hafi tapað öllu og ekkert unnið, það er ósanngjarnt. Það er líka ósanngjarnt gagnvart hópnum sjálfum vegna þess að að sjálfsögðu hefur verið tekið gífurlegt tillit til hans enda skiptir hann nær öllu máli í því hvernig til tekst. Það er ekki gott upphaf ef jafnöflugur og mikilvægur hópur vill gefa þá mynd af sér að hann hafi ekki áhuga á því að efla framhaldsskólann.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi hér áðan að líklegt væri miðað við þetta að kröfur og skipulag háskólanna á aðfaranámi eða fornámi eða frumgreinadeildum inn í háskólana mundu stóraukast. Staðreyndir dagsins í dag eru hins vegar þær að þetta hefur verið að vaxa, að mínu mati of mikið. Ég tel að þetta frumvarp sé sókn í öfuga átt. (GÁ: Hvað segja kennarar?) Hv. þm. Guðni Ágústsson, ég hef ekki trú á því að þú hafir tök á því að geta fullyrt hvað allir kennarar segja. Það vill til að vísu að ég þekki býsna stóran hóp kennara og ég veit vel (GÁ: Hvað um forustumennina?) að þannig er það að sjálfsögðu. Það eru skiptar skoðanir í hópi kennara og það er eðlilegt að svo sé. (Gripið fram í.) Það fer alveg eftir því, hv. þingmaður, fyrir hvaða samtök þú ert að tala og í hvaða samtök þú ert að vitna. Það snýst um það.

Ég ætla að segja frá stuttri heimsókn sem ég átti í lítinn framhaldsskóla úti á landi fyrir ekki alls löngu. (Gripið fram í.) Ég get nafngreint þann framhaldsskóla þrátt fyrir það að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hafi ekki haft tök á því að vera í sömu heimsókn. En hv. þm. Birkir Jón Jónsson var í sömu heimsókn og getur væntanlega staðfest það sem ég mun segja hér.

Þetta var framhaldsskólinn á Laugum. Þar er verið að vinna mjög metnaðarfullt starf og verið er að gera ákveðnar tilraunir í skólastarfi. Þar var það álit algjörlega kristaltært að koma þyrfti þessu frumvarpi í gegnum þingið sem allra fyrst vegna þess að ef það yrði að lögum þá mundi það skapa skólanum gífurleg sóknarfæri. Það mundi auka möguleikana. Þess vegna vil ég segja við hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur sem taldi sig hafa gífurlegar áhyggjur af litlum framhaldsskólum úti um land — ég hef sjálfur starfað í slíkum skóla og þykist þekkja þarfir þeirra og hvernig þeir helst geta þróast: Það er einmitt svona fyrirkomulag sem slíkir skólar þurfa, þ.e. að hafa frelsi til þess að setja námið saman miðað við sitt umhverfi. Með því móti geta þeir þjónað umhverfi sínu sem allra best vegna þess að í dag er framhaldsskólinn þannig settur að hann veitir nærþjónustu. Hann er svo mikill hluti af samfélaginu. Hlutverk framhaldsskóla er stórt. Síðan hefur hann að sjálfsögðu það mikilvæga hlutverk að undirbúa nemendur undir áframhaldandi nám eða til starfa í atvinnulífinu og það er ekki síður mikilvægt.

Þá vil ég, herra forseti, fá að koma örlítið að því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór yfir þann kafla sem ég get sagt að sé hluti af sorgarsögu undirbúningsins. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að það komi fram frumvarpið er að stórum hluta byggt á tillögum frá svokallaðri starfsnámsnefnd. Ég var svo heppinn að eiga sæti í þeirri nefnd og þar náðist víðtæk samstaða um ákveðin grundvallaratriði, ekki bara milli stjórnmálamanna og stjórnenda skólanna heldur líka atvinnulífsins og samtaka kennara. Það var raunverulega allt borðið sem náði samstöðu um ákveðin grundvallaratriði.

Þau grundvallaratriði eru að mestu leyti hér inni, t.d. jafnstaða náms, þ.e. að verknámið og bóknámið séu sett við sama borð. Það er auðvitað flókin vinna að tryggja fullkomlega að það takist og það er auðvitað mikilvægt að allir taki þátt í því. Þess vegna vil ég vera bjartsýnn áfram um að þegar vígamóður rennur af því fólki sem tekur nú þátt í baráttunni þá komi allir saman í þennan leiðangur vegna þess að það er mikilvægur leiðangur sem er fram undan.

Ég bið hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar um að sýna þeim hv. þingmönnum sem rita undir meirihlutaálit menntamálanefndar þá lágmarksvirðingu að taka trúanlegan textann sem þar er sem er útlistun á lagatextanum. Það er skilningur okkar og ég tel að við eigum rétt á því að fullt mark sé tekið á nefndarálitinu. Við lítum þá bara á fyrstu ræðu hér í umræðunni sem einhvers konar slys og vonum að það verði ekki endurtekið hér í dag. Það sem við segjum, það sem við höfum skrifað, það meinum við, það eru skoðanir okkar.

Hv. þingmaður, (Gripið fram í.) sú fullyrðing sem kemur m.a. fram í nefndaráliti sem hv. þingmaður skrifar undir, að við meinum ekkert með því þegar við tölum um að við séum á móti því að skerða stúdentsprófið, er ekki rétt. (Gripið fram í.) Við meinum það fullum fetum að við ætlum ekki að standa að skerðingu stúdentsprófsins. (Gripið fram í.) Við ætlum hins vegar ekki að fullyrða, eins og mér virðist að sumir hv. þingmenn treysta sér til að gera, að allir muni ljúka stúdentsprófi á skemmri tíma. Ég ætla heldur ekki að fullyrða um að það verði ekki einhverjir sem gera það. Ég vona að þeir verði fleiri sem geta tekið stúdentsprófið þess vegna á skemmri tíma (Gripið fram í.) vegna þess (Gripið fram í.) að það virðist því miður vera — ég ætla að leyfa mér að vera áfram bjartsýnn og vona að hv. þingmaður falli ekki í sama farið og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði hér áðan.

Ég verð að sjálfsögðu að bíða þar til hv. þingmaður hefur lokið ræðu sinni. En ég tel það afar mikilvægt fyrir hv. þingmann að hann hugsi sig vel um áður en hann fer með ræðu sína án þess að gera athugasemdir við nokkur atriði í því nefndaráliti sem hv. þingmaður hefur skrifað undir. Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt fyrir hv. þingmann að gera slíkt.

Herra forseti. Ég ætlaði mér að fara yfir ýmis mál í smáatriðum en ég verð að játa að mér er nokkuð brugðið við þann málflutning sem hér er. En ég leyfi mér að segja að þessi málflutningur tekur mið af því að það er stutt til þingloka. Það virðist vera markmið ákveðinna hv. þingmanna eða þingflokka að nýta þetta mál ásamt einhverjum öðrum til að skapa sér ákveðna stöðu gagnvart einhverju sem við ekki alveg vitum um. (GÁ: Þetta er ómerkilegur áróður.)

Herra forseti. Þetta mál er þeirrar gerðar að það skiptir máli og það skiptir máli fyrir skólasamfélagið að við sýnum því þá virðingu að fjalla um málið eins og það liggur hér fyrir, að ekki sé verið að reyna að skapa moldviðri um eitthvað sem einhver sagði fyrir mörgum árum. Við fjöllum um staðreyndir málsins. Við erum að skapa framhaldsskólunum tækifæri. Við ætlum okkur að leiða hann áfram á þeirri vegferð vegna þess að það er mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að framhaldsskólakerfið eflist. Það er mikilvægt að nemendur framhaldsskólans geti valið um fjölbreytt nám, að hægt sé að bjóða upp á mjög fjölbreytta samsetningu á námsbrautum og námsleiðum til stúdentsprófs til loka starfsnáms o.s.frv.

Það eru mikilvæg ákvæði í þessu frumvarpi sem ganga út á að sett verði á laggirnar framhaldsskólapróf, m.a. til að tryggja að hægt sé að ljúka framhaldsskólanum þess vegna í áföngum ef nemendur hafa á því áhuga. Það eru líka mjög metnaðarfullar áætlanir um að styrkja innviði skólanna, styrkja þá aðstoð sem nemendum stendur til boða. Ég vil nefna, vegna þess að það kom fram hér í ræðu og í nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar, að lítið er gert úr þeim breytingum sem ætlað er að styrkja stöðu náms- og starfsráðgjafa. Það er hins vegar mjög skýrt í nefndarálitinu hvernig skilja ber þann texta sem er í frumvarpinu, þ.e. að námsráðgjafar eigi að hafa háskólamenntun í náms- og starfsráðgjöf. Ég viðurkenni það fúslega að þetta er ekki nákvæmlega það sama og löggilding. Þetta er hins vegar afar mikilvægt skref og segja má að þetta sé millistig frá því sem var og löggildingar. Hægt er að færa fyrir því rök að þetta skili að mestu leyti sama árangri. Við vonum það, það kemur auðvitað í ljós og er ekki hægt að fullyrða að öllu leyti um það. En ég tel þetta vera afar mikilvægt skref til að styrkja stöðu náms- og starfsráðgjafa í grunn- og framhaldsskólum. En það verður hver að haga sínum málflutningi eins og hann telur að henti best. Ég tek eftir því í minnihlutaáliti menntamálanefndar að það er afar lítið úr þessu gert. Þetta er þó mjög mikilvægt skref sem við eigum að fagna.

Herra forseti. Að lokum eru hér gerðar kröfur um, og minni hlutinn fjallar um það í nefndaráliti sínu, að tryggja þurfi fjárhagsstöðu framhaldsskólanna til allrar eilífðar í þessu frumvarpi — eða allt að því, ef ég skil það rétt. Hv. þingmenn vita að það er ekki gerlegt. Kannski er hægt að nýta sér það í einhverju ímynduðu áróðursstríði til þess að reyna að blekkja einhverja fyrir utan þetta hús. En ég trúi því ekki að nokkur hv. þingmaður viti ekki betur (GÁ: Af hverju er alltaf verið að blekkja?) vegna þess að fjármagnið er ákveðið í fjárlögum hvers árs. Í greinargerðinni og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur það þó skýrt fram að ætlunin er að láta meira fjármagn renna í menntakerfið, það er víðtækur skilningur á því — og ég vona að hann sé hjá öllum þingheimi — að það er mikilvægt framtíðarverkefni að efla menntakerfið. Virðulegi forseti. Það eru óheillaverk þeirra sem halda að það sé til góðs fyrir íslenskt skólakerfi að efna til illinda milli hv. þingmanna með því að snúa út úr málflutningi (GÁ: Hvað segja kennararnir?) annarra.