135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:11]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er talað um að það sé sárt að hlusta á málflutning stjórnarandstöðunnar. Mér finnst frekar langt seilst ef það er sárt að hlusta á einhvern sem er einfaldlega ósammála manni um hvaða leiðir eigi að fara í tilteknu máli. Ég held að ég hafi nú ekki (Gripið fram í.) sagt neitt persónulegt við þingmenn Samfylkingarinnar (Gripið fram í.) sem eigi að særa þá sérstaklega.

Hér er talað um villuráfandi málflutning og komið fram að uppi hafi verið áform en frá þeim hafi verið horfið. Samt eru í greinargerðinni sömu rök og setningar og voru í bláu skýrslunni. Samt slitnaði upp úr samstarfinu. Samt túlkar Félag framhaldsskólakennara og fjöldinn allur af félögum víðs vegar í framhaldsskólum úti um allt land þetta eins og sá þingmaður sem hér stendur. Ég útskýrði það mjög skilmerkilega í ræðu minni áðan að ekki sé tilgreint í núgildandi lögum hve margar einingar ættu að vera til stúdentsprófs.

Ég hef hins vegar sagt, og ég get endurtekið það, að sú breyting sem á sér stað í þessum frumvörpum, og þau áform sem við vitum að menntamálaráðherra hefur, gerir það að verkum að við viljum fá einingarnar inn í lögin. Það er breytingin sem við viljum.