135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

Ósabotnavegur.

[15:24]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig um Garðskagaveg, ef ég man nafn hans rétt, (Gripið fram í: Jú.) um Ósabotna. Samkvæmt gildandi samgönguáætlun sé ég að 60 millj. kr. eru áætlaðar í þennan veg árið 2010. Nú er mér ekki kunnugt um og er ekki með svör á reiðum höndum um þá framkvæmd sem hv. þingmaður fjallar um, þ.e. hvað búið er að byggja upp. Ég skil vel að menn vilji fá á veginn bundið slitlag ef sú fjárveiting sem hefur fengist til uppbyggingar vegarins dugar ekki til þess. Nú vil ég ekki úttala mig um að svo sé. Á fjölförnum vegum stefnum við auðvitað að því að sé bundið slitlag, þarna eins og annars staðar. Ég get ekki sagt annað en það, virðulegi forseti, að þessar 60 millj. kr. eru þarna inni árið 2010 og hvort þær hafa verið hugsaðar í slitlag get ég ekki sagt um þannig að ég verð að kynna mér það betur áður en ég svara því frekar.