135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

Sóltúnssamningurinn og framkvæmd hans.

[15:47]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hjúkrunarheimilið Sóltún sinnir góðri þjónustu við þá íbúa sem þar búa og full ástæða er til að taka það fram hér að mikill skilningur er á því að það hjúkrunarheimili sinnir vel því verki sem því hefur verið falið. Ánægja sjúklinga og aðstandenda ber vitni um það.

Ágreiningurinn snýst um það hvort skráning tiltekinna verka hafi verið með fullnægjandi hætti og hvort farið hafi verið að réttum formreglum þar um. Ekki er hægt, eins og að sumu leyti hefur mátt ráða af umræðu í fjölmiðlum, að draga þær ályktanir að þjónustan hafi ekki verið innt af hendi heldur snýst ágreiningurinn fyrst og fremst um það hvaða reglum hafi átt að fylgja við skráningu verkanna.

Það er alveg ljóst, þegar horft er yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar, og farið yfir afstöðu aðila samningsins, að margþætt vandamál eru við framkvæmd hans. Mikill ágreiningur er milli aðila um hlutverk samningsaðila, um hvernig aðilar eigi að skrá verk og hvernig þeir eigi að koma fram gagnvart öðrum í deilumálum. Lausnin á því er ekki sú sem mér fannst hv. upphafsmaður láta að liggja, að það væri þá rétt að hætta að gera samninga. Þvert á móti, það á að halda áfram að gera samninga en það á að bæta samningsumhverfið og það á að skýra hlutverk hvors aðila um sig, kaupanda þjónustunnar og þess sem veitir hana. Lausnin felst í því kerfi sem stefnt er að að koma á með hinni nýju sjúkratryggingastofnun þar sem skýrt er kveðið á um hlutverk kaupanda (Forseti hringir.) og veitanda þjónustu og um vanefndaúrræði og aðra nauðsynlega þætti til að tryggja að vel sé farið með opinbert fé og (Forseti hringir.) að hámarksgæði þjónustu séu tryggð.