135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

Sóltúnssamningurinn og framkvæmd hans.

[15:54]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hjúkrunarheimilið Sóltún hefur nú starfað í rúmlega sex ár og það var í tíð Ingibjargar Pálmadóttur sem heilbrigðisráðherra að samningur var gerður við einkaaðila um byggingu og rekstur hjúkrunarheimilisins í einkaframkvæmd til 27 ára. Samningurinn markaði tímamót í mörgum skilningi. Aldrei áður hafði verið gerður samningur við einkaaðila með þessum hætti. Hann fól í sér nákvæmar kröfur um þjónustu, aðbúnað og eftirlit og hvernig greitt skyldi fyrir þjónustuna en það byggist á mati á hjúkrunarþyngd eftir svokölluðu RAI-kerfi. Sett voru ný viðmið um þjónustu og aðbúnað aldraðra og hefur það leitt til hugarfarsbreytingar í samfélaginu varðandi þjónustu við aldraða á hjúkrunarheimilum. Í stað stofnanaþjónustu sem líkist sjúkrahúsum tekur þjónustan nú í auknum mæli mið af því að skapa heimilisbrag með sérbýli með baði fyrir hvern og einn og notaleg dagrými fyrir smærri hópa heimilisfólks. Það er óumdeilt að aðbúnaður og þjónusta á Sóltúni hefur verið fyrirmynd breytinga og uppbyggingar á öðrum hjúkrunarheimilum hér á landi frá því að það tók til starfa. Verður því ekki annað sagt en að skrefið sem Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, steig á sínum tíma hafi verið til farsældar.

Heilbrigðisnefnd fjallaði fyrir nokkru um þá athugun Ríkisendurskoðunar sem hér er til umræðu og fékk á fund sinn fulltrúa heilbrigðisráðuneytis, Ríkisendurskoðunar og forsvarsmanna Sóltúns. Sá lærdómur sem ég tel að draga megi af þessari athugun er eftirfarandi:

1. Það er nauðsynlegt að finna farveg til að leysa úr ágreiningi aðila um skilgreiningu á þáttum í RAI-mati sem er grundvöllur greiðslu fyrir þjónustuna og ekki síst hvað varðar sjúkra- og iðjuþjálfun sem mér virðist deilan fyrst og fremst snúast um.

2. Mikilvægt er að staðið sé að skráningu í sjúkraskrá samkvæmt stöðlum sem settir eru af heilbrigðisyfirvöldum, ekki síst þar sem slík skráning er grundvöllur greiðslu.

3. Að auka eftirlit landlæknis í öldrunarþjónustunni almennt.

Að lokum tel ég að það hljóti að vera hagsmunir beggja aðila að taka samninginn til endurskoðunar með hliðsjón af reynslu síðustu ára og í ljósi þess að hann var nýlunda fyrir báða aðila. Sérstaklega þarf að skoða kröfu samningsins um ákveðna þætti þjónustu og aðbúnaðar (Forseti hringir.) svo og þá þætti sem ég ræddi hér á undan.